Góð aðsókn á Evrópsku kvikmyndahátíðina – Myndir

1.300 manns sóttu fyrstu Evrópsku kvikmyndahátíðina í Reykjavík (REFF 2012) sem haldin var í Bíó Paradís 16.-25 nóvember. Sýndar voru 14 kvikmyndir, flestar þeirra nýjar myndir sem farið hafa sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins á undanförnum mánuðum. Einnig voru haldnar sýningar á þremur myndum gríska meistarans Theo Angelopoulos sem lést fyrr á árinu.

Í tilkynningu frá Bíó Paradís kemur fram að vinsælustu myndir hátíðarinnar voru Tabu (Tabú) frá Portúgal, Les seigneurs (Gaurarnir) frá Frakklandi og The Deep Blue Sea (Hafið djúpa bláa) frá Bretlandi. „Þá var einnig mjög fín aðsókn á myndir Angelopoulos sem og á sérstaka sýningu á bresku kvikmyndinni Tyrannosaur (Skemmd epli) sem haldin var til styrktar UN Women á Íslandi.“

REFF 2012 var haldin í samvinnu Bíó Paradísar, Evrópustofu og sendinefndar ESB á Íslandi með aðkomu UN Women á Íslandi. Stefnt er að því að gera hátíðina að árlegum viðburði.

Sjá myndir hér að neðan frá opnunarkvöldi hátíðarinnar:

Gestir gæða sér á veitingum

Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar heldur ræðu.

Sjón Sigurðsson og eiginkona hans Ásgerður Júníusdóttir létu sig ekki vanta

Lárus Ýmir Óskarsson kvikmyndaleikstjóri ræðir málin við annan opnunargest.

Hallur Helgason, Ásgrímur Sverrisson dagskrárstjóri Bíó Paradísar, og gestur  á opnuninni.

Mummi í Mótorsmiðjunni og annar ónefndur gestur.