Teiknimyndabrjálæði

Fyrstu persónu skotleikir eru vinsælasta tegund leikja í dag. Þeir koma út í tonnatali og eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Call of Duty og Battlefield eiga auðvitað þennan heim, en inná milli koma leikir sem standa algjörlega upp úr. Borderlands átti þannig augnablik fyrir nokkrum árum. Keyrður áfram af frábærum húmor, nær óteljandi byssum, frábærum karakterum og teiknimyndagrafík. Leikurinn sló algjörlega í gegn og seldist nógu mikið til að réttlæta framhald. Borderlands 2 tekur svo við fimm árum eftir að Borderlands söguþráðurinn endar. Geymirinn sem karakterarnir í fyrsta leiknum opnaði varð ekki alveg það sem þau bjuggust við. Nýtt geimveruefni kom þó á yfirborðið, eridium, og býr yfir meiri krafti en hefur sést. Illmennið Handsome Jack er þá kominn með her af vélmennum og ætlar sér að nota efnið til að drepa alla óþokka á Pandoru.

 

Hlutverk þitt er þá að stöðva hann, og byrjar leikurinn á svipaðan hátt og sá fyrri. Þú færð að velja á milli 4 mismunandi karaktera sem búa yfir svipuðum hæfileikum og karakterar fyrri leiksins. Þú færð svo strax að hitta kunnuleg andlit eins og Claptrap, Angel, Lily og alla þá sem einkenndu fyrsta leikinn. Nýju karakterarnir  eru ótrúlega vel heppnaðir og eru þar assassin, gunzerker, siren og engineer. Allir búa yfir sínum einstaka krafti sem verður betri og betri með hverju hækkuðu leveli.

Það er ekki oft sem leikur fær hrós fyrir ótrúlega vel heppnað handrit, en Borderlands 2 er með eitt það besta sem ég hef séð í langan tíma. Samræðurnar eru algjör snilld og það er ekki hægt að telja á báðum höndum hversu oft maður hlær upphátt að leiknum. Illmenni leikjarins, Handsome Jack, er svo snilldarlega skrifaður að þig langar virkilega ekki að gera neitt annað en að drepa hann. En aftur á móti þá er hann svo ótrúlega ánægður með sjálfan sig að þig langar ekki að missa hann frá leiknum. Claptrap, uppáhald allra, er í ennþá stærra hlutverki. Ég get þó ekki sagt að ég hafi verið hrifinn af karakternum í þetta skiptið. Hann er einfaldlega of mikið í sviðsljósinu.

 

Litlar breytingar hafa átt sér stað sem gera spilunina þægilegri í heild. Það er komið kort á skjáinn sem hægt er að fylgja eftir, það eykur þægindin að ferðast um leikinn til muna. Peningar og skot sogast núna til þín, þú þarft ekki að ganga um og taka upp hvert einasta dollarabúnt. Byssurnar eru orðnar ennþá fleiri, og snýr engin byssa aftur úr fyrri leiknum. Það eitt og sér er ótrúlegt afrek. Sum vopn eru ótrúlegt en satt alveg yndislega fyndin. Í spilun minni sem Zero eignaðist ég sniper sem talaði niður til mín í hvert skipti sem ég drap einhvern. Það var vægast sagt óþægilegt og fyndið á sama tíma, en Gearbox fá svakalegan plús fyrir að blanda svona sýrðum húmor í leikinn.

Söguþráður leiksins svipar voðalega til fyrri leiksins. Aðal markmiðið er að skjóta þig í gegnum hinar og þessar aðstæður og leysa hin og þessi vandamál fyrir mismunandi aðila. Svipað og allir quest leikir byggja sig upp. Sum eru ótrúlega sniðug, eins og að týna blóm fyrir ömmu Handsome Jacks, en önnur þurr og leiðinleg eins og að drepa/finna X marga hluti. En fyrst og fremst er leikurinn ætlaður co-op spilun, hvort sem það er í sama skjá eða í gegnum netið. Ég spilaði leikinn með öðrum aðila í gegnum netið (og með skype, auðvitað) og gerði það upplifunina talsvert betri en að spila leikinn einn. Það gæti þó orsakað lítið vandamál hjá fólki sem kýs að spila ekki á netinu, eða er ekki með vini sem eiga leikinn. Það er hægt að byrja leik með tilviljunarkenndum aðila út í heimi, en nema að þú sért með míkrafón og tilbúinn til að tala og hlusta á bjagaða ensku þá mæli ég ekki með því.

 

Eftir að leiknum lýkur þá er ekki hægt að segja að það sé kominn tími til að setja hann upp á hillu. Þú færð bæði þann valkost að spila New Game+, en Gearbox segja að þar sé leikurinn rétt að byrja, og svo eru auðvitað 3 karakterar í viðbót sem hægt er að spila í gegnum. Ekki virðist það einu sinni nægja þar sem hver karakter er með 3 mismunandi skill tree sem hægt er að fylla út, og er mælt með að fylla aðeins eitt út í hverri spilun. Þar sem þau skapa afar mismunandi upplifanir á karakterunum.

 

Í heildina litið er Borderlands 2 einu skrefi fyrir ofan forvera sinn. Pandora lítur betur út þökk sé fjölbreyttari stöðum. Ekki er jafn mikið um texture pop-in. Handritið er fyndnara og karakterarnir skemmtilegri (fyrir utan Claptrap). Leikurinn á stóran séns í FPS ársins og eins og staðan er núna á hann meiraðsegja séns í leik ársins.