Getraun: The Green Hornet (DVD)

Ef þú hefur ekki séð myndina The Green Hornet (sem var frumsýnd í janúar) eða deilir þeirri skoðun að hún sé með þeim vanmetnari afþreyingarmyndum sem hafa komið út á árinu, þá myndi ég endilega hvetja þig til þess að halda áfram að lesa. Þessi brómantíska spennu/gamanmynd lendir á DVD á morgun og ég hef fengið í hendurnar nokkur eintök sem ég ætla að gefa. Það þykir nú nokkuð tilvalið miðað við (ofur)hetjuvæðinguna sem einkennir þetta bíósumar – og næsta sumar líka án nokkurs vafa.

Fyrir þá sem misstu af henni eða vita ekkert um hana þá segir hún frá Britt Reid (Seth Rogen), sem er sonur hins vellauðuga fjölmiðlaútgefanda James Reid (Tom Wilkinson) en hefur lítinn áhuga á að feta í fótspor föður síns, en eyðir þess í stað öllum stundum í partístand og villt líferni. Þegar faðir hans er myrtur einn daginn ákveður Britt þó að snúa lífi sínu við og gera eitthvað af viti við það. Hann kynnist fyrrum aðstoðarmanni hans, Kato (Jay Chau), og saman ákveða þeir að gerast réttlætisriddarar og berjast gegn illmennum borgarinnar, á milli þess sem Britt lærir að stjórna fjölmiðlaveldi sínu. Ritari hans þar, hin fagra Lenore Case, hjálpar honum að komast að því að dularfullur maður að nafni Chudnofsky (Christoph Waltz – Hans Landa sjálfur) er höfuðpaur stærstu glæpasamtaka borgarinnar, og ákveður Britt að hafa hendur í hári hans og nota til þess gervi sitt sem Græna vespan, en illmennin eru ekki sögð hættuleg að ástæðulausu…

Og fyrir þá sem nenntu ekki að lesa þetta, þá getið þið skoðað trailerinn hér:

Og fyrir þá sem nenntu ekki að horfa á trailerinn og vilja koma sér beint að getrauninni, þá er ósköp lítið sem þarf að gera til að eiga séns á DVD disk. Þið svarið skemmtilegri spurningu (sem ekki er hægt að fá rangt svar fyrir, athugið það) og hafið alveg fram að föstudeginum til að senda það inn. Netfangið er tommi@kvikmyndir.is.

Spurningin er svohljóðandi: Hver er uppáhalds myndin þín sem fjallar um hetju án ofurkrafta?

Eins og var tekið fram er ekki hægt að senda inn rangt svar. Ég dreg úr póstum sem eru sendir til mín en tek það gjarnan fram að smá rökstuðningur gæti veitt góðan plús. Fínt að krydda þetta aðeins nefnilega.

Gangi ykkur vel.


„That’s a bingooooo!“