Mage verður gerð

Myndasagan Mage eftir Matt Wagner verður nú að stórri Hollywoodmynd. Handritið er skrifað af manni sem heitir John Rogers en hann skrifaði handritið að Jesse James, sem síðar varð að kvikmyndinni American Outlaws með Colin Farrell. Hann var fenginn til að skrifa handritið eftir að Kevin Smith ( Chasing Amy ) hætti við, en Músahúsið Disney hafði fengið hann til þess. Smith hafði einfaldlega ekki tíma til þess vegna þess að hann átti fullt í fangi á þeim tíma að kljást við allar dauðahótanirnar frá strangtrúuðum kaþólikkum eftir að hann hafði gert Dogma. Rogers þessi tók því við og nú loksins, um tveimur árum síðar, hefur verið fundinn leikstjóri að verkefninu. Er það F. Gary Grey ( Friday , The Negotiator ) og hefur hann fengið um 70 milljónir dollara til að gera myndina fyrir Disney. Engir leikarar hafa enn verið nefndir til sögunnar, en þetta er verkefni sem er þess virði að fylgjast með.