Martraðir og svefnmeðöl

Þær raðast inn umfjallanirnar frá notendum síðunnar og aðalgagnrýnanda kvikmyndir.is Tómasi Valgeirssyni.

Tómas brá sér í draumalandið og hitti þar fyrir draumaprinsinn sjálfan, Freddy Krueger, sem styttir sér stundir við að myrða fólk á meðan það svefur.

Tómas er ekkert sérstaklega hrifinn af Freddy og fórnarlömbum hans og gefur myndinni 5 stjörnur af tíu mögulegum. „Mest megnið af brjálæðinu sem við sjáum hér er eitthvað afrit af því sem við höfum séð áður og það er eiginlega ófyrirgefanlegt í mynd sem telur sig vera uppfærsla,“ segir Tómas meðal annars.

ívar Jóhann Arnarson, sem skrifar reglulega gagnrýni um bíómyndir hér á kvikmyndir.is, á tvær nýjar umfjallanir.

hann gefur hasarmyndinni The A-Team 7 stjörnur og segir að myndin sé fín: „Mér fannst þetta fín mynd en persónusköpunin hefði mátt vera aðeins jarðbundnari,“ segir Ívar.

Ívar gefur hins vegar lítið fyrir Street dance sem fær hauskúpuna frá honum, eða 1 stjörnu. „….versta mynd ársins enn sem komið er,“ segir Ívar.

Þá er komin ný gagnrýni frá Sölva Sigurði sem er einnig virkur gagnrýnandi hér á síðunni, en hann var næstum sofnaður á Brooklyn´s finest
„Ég hef aldrei sofið í bíó (fyrir utan á 17 again) en það munaði svona 20 sinnum að ég hafði sofnað þarna. Það var kvöld og svona, var þreyttur og ég hélt að einnhver skemmtileg, hávær gangster-mynd ætlaði að peppa mann smá upp. En neinei, það virkaði ekki,“ segir Sölvi og slengir 4 stjörnum á myndina.