Út af einhverjum ástæðum fór þessi mynd alveg framhjá mér þegar hún var sýnd í bíó hér á landi. Með tímanum hafði ég ekki enn fundið einhverja góða ástæðu til að kynna mér hana. En það sem merkilegt er, að á öllum þessum tíma hefur verið byggt upp alveg rosalegt hype í kringum hana, ekki bara hjá stelpum, strákum líka! Ég fann fyrir því hversu útúr ég var þegar ég sagði alltaf í kringum fjölda fólks að ég hafði aldrei séð The Notebook, og vissulega fékk ég alltaf drápssvipi senda til mín í staðinn, og örugglega þúsund meðmæli um að ég ætti loks að hundskast til að sjá þessa mynd.
Loksins kom sá dagur, að ég leigði myndina og á endanum get ég ekki sagt annað en að ég hafi fengið nákvæmlega það sem ég bjóst við... Nema bara aðeins betra.
Ég ímyndaði mér þessa mynd sem voða formúlubundna ástarsögu keyrð af yfirdrifinni væmni ásamt sterkum Hallmark-keim. Vitið þið, ég fékk einmitt þetta. Munurinn er reyndar sá að ég kom til með að festast inn í sögunni meira en ég bjóst við. Þetta er ástarmynd, jú, og alls ekkert að því. Bestu ástarsögurnar að mínu mati eru þær sem hitta til alvöru tilfinningar áhorfandans, í stað þess að byggja á klisjum. Kvikmyndir eins og Before Sunrise eða jafnvel When Harry Met Sally, þær sýna manni hvernig skal halda með parinu.
The Notebook tókst að fanga mína athygli undir yfirborði formúlunnar. Ég virkilega fann til með persónunum á köflum. Myndin fær líka góða hjálp frá þrusugóðum frammistöðum. Rachel McAdams er manneskja sem ég er sífellt að sjá nú á dögunum, og hef ég hingað til ekki séð hana gera neitt af óviti. Ryan Gosling hefur líka ákveðna útgeislun þegar að hann er á skjánum, sem gerir hann ákaflega viðkunnanlegan. Miðað við hversu góðir leikarar þau bæði eru í sitt hvoru lagi, þá er rétt hægt að ímynda sér hvernig þau eru saman. En sama hversu góðir ungu leikararnir voru, þá voru það þau Gena Rowlands (sem er móðir leikstjórans) og James Garner sem að mér þótti vera einn sterkasti þáttur myndarinnar. Þau eiga sömuleiðis allra bestu senuna í myndinni, sem er aðeins rétt í lokin. Hefði myndin ekki haldið áfram eftir þá senu og sokkið út í meiri melódramatík, þá fengi hún heila tölu aukalega í einkunn trúi ég. Þetta hefði orðið fullkominn endir í sjálfu sér, enda vefur hann saman allt sem við höfum séð klukkutímunum áður, en útaf einhverjum ástæðum ákvað leikstjórinn að koma með aukasenu eftirá sem virkaði aðeins meira ''Hollywood.''
Myndin kemur reyndar vel út á flesta kanta burtséð frá þessu, og mér finnst alveg skiljanlegt hvers vegna margir halda svona mikið upp á hana. Persónulega get ég ekki sagt að hér sé einhver gimsteinn á ferðinni, en alls ekkert kjaftæði heldur. Mér líkaði vel við myndina og tel hana vel eiga skilið ágætis meðmæli.
Ég get annars verið vel sammála því að þetta sé meðal ''sætari'' mynda síðari ára. Ekki vafi þar.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei