Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

My Sister's Keeper 2009

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 8. júlí 2009

Growing apart. Growing together. Sisters are forever.

109 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 47% Critics
The Movies database einkunn 51
/100

Myndin segir sögu ungrar stúlku sem fer í mál við foreldra sína, svo hún geti sjálf tekið ákvörðun um hvort hún eigi að gefa nýra til að bjarga lífi eldri systur sinnar.

Aðalleikarar

Ekki þurrt auga í salnum
My Sister’s Keeper er gerð eftir samnefndri bandarískri bók sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2006 undir nafninu „Á ég að gæta systur minnar?“. Kvikmyndin er í raun allt annar handleggur, þar sem endirinn er afar ólíkur þeim sem er í bókinni, þó að það verði vitanlega ekki útskýrt nánar hér.

Fitzgerald fjölskyldan hefur staðið í ströngu í rúm 13 ár við að halda miðbarninu, Kate, á lífi en hún hefur þjáðst af hvítblæði frá tveggja ára aldri. Þegar hún byrjaði í meðferð á sínum tíma þurfti hún að fá beinmerg, blóðkorn og ýmislegt fleira gefið og þá helst frá sem nánustum fjölskyldumeðlim. En þar var einn hængur á: Hvorki foreldrar hennar né eldri bróðir hennar, Jesse, hentuðu sem gjafar.

Foreldrar hennar bregða þá á það ráð í samráði við lækni að sérsníða þriðja barn sitt með glasafrjóvgun svo að það geti séð Kate fyrir „varahlutum“. Þetta barn hlýtur nafnið Anna og það er hún sem byrjar á því að segja söguna frá sínum sjónarhóli.

Þegar kvikmyndin gerist hefur Anna margsinnis gengist undir aðgerðir til að hjálpa systur sinni og nú er henni ætlað að gefa henni annað nýra sitt. Þá fær hún nóg og ákveður að lögsækja móður sína. Það þarf varla að taka fram að þetta skapar gríðarlega togstreitu innan fjölskyldunnar, sem áhorfandinn fer ekki varhluta af, þar sem kvikmyndin beinir sjónum sínum listilega að einni persónu í einu, sem kemur sinni meiningu á framfæri, óritskoðað og frá hjartanu.

Það mæðir hvað mest á Cameron Diaz sem fer með hlutverk hinnar sterku móður, en hún berst með kjafti og klóm fyrir dóttur sína, þó hún eigi til að gleyma að hún á tvö önnur börn. Hún fer ágætlega með sitt hlutverk og það er hressandi að sjá hana í dramatískari gír en oft áður. Hin unga Abigail Breslin sem er flestum kunnug úr hinni lágstemmdu Little Miss Sunshine er líka sannfærandi, þó að hún rokki á milli þess að vera gömul sál og lítil, barnaleg stúlka á stundum, en ef til vill var persónunni ætlað að vera þannig. Sofia Vassilieva hefur ekki mikla reynslu, en í hlutverki Kate tekst henni að sýna bæði stóíska ró þess sem er búinn að sætta sig við aðstæður sínar og barnalegan unglinginn sem býr undir yfirborðinu. Hinn eitursvali Alec Baldwin kemur líka skemmtilega á óvart í hlutverki lögfræðings Önnu.

Vonleysið sem brýst reglulega út hjá persónunum er oft brotið upp af fallegum endurminningum eða litlum brandara, þannig að þessi fallega og átakanlega kvikmynd hlýjar manni bæði um hjartaræturnar og rífur í þær.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
10 vasaklúta mynd
Árið 2006 kom út í íslenskri þýðingu bókin Á ég að gæta systur minnar? eftir Jodi Picoult. Nú hefur þessi bók verið kvikmynduð og hefur það tekist afar vel. Nick Cassavetes (Note Book, John Q) leikstýrir myndinni af festu.
Myndin fjallar um systurnar Önnu (Abigail Breslin) og Kate (Sofia Vassilieva). Kate er með hvítblæði og hefur Anna séð henni fyrir beinmerg síðan hún var smábarn. Einn daginn fær hún nóg af því og fer í mál við foreldra sína, vill fá að ráða yfir sínum líkama. Skiljanlega bregðast foreldrarnir illa við, sérstaklega móðirin. Við fylgjumst svo með baráttu Kate og fjölskyldunnar við krabbameinið og einnig baráttu Önnu fyrir sjálfstæði.
Leikarnir standa sig frábærlega. Cameron Diaz er góð sem móðirin, Jason Patric er flottur sem heimilisfaðirinn og Alec Baldwin fer vel með hlutverk lögmannsins. En það eru Abigail og Sofia sem halda myndinni uppi með frábærum leik.
Helsti galli myndarinnar er kannski sá að það er of mikið um endurtekningar og einfaldar útskýringar.
Í heild er þetta góð og hjartnæm fjölskyldusaga, meira að segja hörðustu sjóarar fella tár.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ekki fyrir alla
Ég fór á skjáreinn bíður í bíó frumsýningu á myndinni og var spennt eftir að hafa lesið bókina sem var frumleg, vönduð og skemmtileg.
Myndin var vel leikin og vönduð, en hún hefði getað verið betri.
Það kom mér á óvart að sjá að Cameron Diaz gæti leikið eitthvað annað en þessa týpísku girl next door, og hef ég alltaf litið á Abigail Breslin sem barn og var gaman að sjá að hún gat spreytt sig á erfiðara og meira krefjandi hlutverki en venjulega. Myndin snýst um hvað maður er tilbúin að fórna miklu fyrir börnin sín og fyrir hvert annað. Í bókinni koma fram tilfinningar og lífssýn allra aðila sem standa að þessu máli, en í myndinni tókst það ekki mjög vel. Ég persónulega hefði verið til í að sjá minna væmið og sterkari tilfinningar. Ég var ánægð með myndina þegar yfir hana er litið en eins og ég sagði er hún ekki fyrir alla. Myndi ég mæla með henni fyrir fólk sem er fyrir sorglegar myndir og sem hefur gaman af því að sjá væmnar myndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sjónvarpsmyndaklisja í dulargervi
Leikstjórinn Nick (sonur John) Cassavetes er augljóslega afar stoltur af því að hafa náð að græta kvenmenn á öllum aldri með The Notebook, svo hann hefur ákveðið að búa til mynd sem gengur nánast alfarið út á það að dæla út tárum við hvert tækifæri. Og hvernig gerir hann það? Að sjálfsögðu með öllum gömlu brellum bókarinnar: Væminni tónlist, slow motion-skotum, áköfum nærmyndum af tárum leikaranna og síðast ekki síst gömlum tuggum þar sem persónur hamra á því hvað þeim líður illa. Ef mér skjátast ekki þá líða varla fimm mínútur á milli atriða þar sem fólk grætur. Fólk sem tárast auðveldlega yfir bíómyndum ætti að búa sig undir átakanlegt bíókvöld. Það má gleyma því að taka með sér vasaklúta. Hentugra væri að taka heila fötu.

Persónulega fannst mér myndin frekar "cheap" í dramanu. Mér fannst hún áhrifarík að vissu leyti, en allan tímann leið mér eins og leikstjórinn hafi ætlast til að ég myndi finna fyrir tárum fremur en að leyfa dramanu að virka sterkt af sjálfu sér, án þess að styðjast við yfirdrifna tónlistarnotkun og klisjukennda frasa. Því miður lenti ég oft í því að þurfa að sitja yfir lélegum sjónvarpsmyndum á Hallmark-rásinni með múttu í denn, og satt að segja er My Sister's Keeper ekkert ólík slíkum, nema jú, hún hefur þekktari leikara í forgrunni.

Það er lítið að frammistöðunum í myndinni, og í raun verð ég svolítið að dást að því hvernig leikararnir meikuðu þessa endalausu táraflóðspyntingu leikstjórans. Fólkið á skjánum hefði alveg getað látið myndina virka betur, en handritið og leikstjórnin var einum of. Það er að vísu eitt ákaflega sterkt atriði sem stóð upp úr, og sú sena er gjörsamlega í höndum Joan Cusack. Það er ótrúlegt, en hún sýndi öflugri tilþrif og meiri persónuleika í þessu eina atriði heldur en flestir aðrir gera út alla myndina. Og hvergi heyrðist mjúk melódramatísk tónlist.

Ég skil ekki alveg hvað leikstjórinn var að pæla með svona þvingaðri sögu. Hingað til hef ég haft fínt álit á manninum. Ég meira að segja fílaði Notebook tiltölulega vel. Hún var væmin á sumum stöðum, hjartnæm á öðrum en almennt komst góð saga til skila. Svo fyrir nokkrum árum gerði hann hina dúndurgóðu Alpha Dog. Það er samt alveg hægt að segja að My Sister's Keeper þjóni tilgangi sínum. Stelpur í tonnatali munu eflaust láta undan þeim brjálaða þrýstingi leikstjórans að gráta yfir senum sem "vilja" að þú grátir yfir þeim. Einhverjir halda kannski að ég sé með hjarta úr stáli, en fyrir mér voru dramaatriði þessarar myndar álíka fyrirsjáanleg og lin og flestar bregðusenur eru í ungingahrollvekjum. Ef ég vil horfa á mynd með vasaklútinn við næstu hönd, þá er ég alltaf veikur fyrir Million Dollar Baby. Svo er náttúrulega alltaf Showgirls.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

08.07.2009

Umfjöllun: My Sister's Keeper

Eftirfarandi umfjöllun er því miður spoiler-laus."Sjónvarpsmyndaklisja í dulargervi"Leikstjórinn Nick (sonur John) Cassavetes er augljóslega afar stoltur af því að hafa náð að græta kvenmenn á öllum aldri með The N...

11.05.2012

Kynóð argentínsk Cameron Diaz

The Counselor, næsta leikstjóraverkefni Ridley Scott á eftir Prometheus, raðar inn stórum nöfnum í helstu hlutverk. Þar má nefna Michael Fassbender, Brad Pitt og Javier Bardem. Myndin fjallar um lögfræðing (Fassbe...

18.08.2011

Vælumyndaviðvörun í flugvélum Virgin Atlantic

Breska flugfélagið Virgin Atlantic hefur ákveðið að gefa út sérstakar vælu viðvaranir áður en ákveðnar bíómyndir eru sýndar í bíókerfi vélanna. Gildir þetta fyrir myndir eins og Water for Elephants og Toy Sto...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn