Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



My Sister's Keeper
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ekki þurrt auga í salnum
My Sister’s Keeper er gerð eftir samnefndri bandarískri bók sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2006 undir nafninu „Á ég að gæta systur minnar?“. Kvikmyndin er í raun allt annar handleggur, þar sem endirinn er afar ólíkur þeim sem er í bókinni, þó að það verði vitanlega ekki útskýrt nánar hér.

Fitzgerald fjölskyldan hefur staðið í ströngu í rúm 13 ár við að halda miðbarninu, Kate, á lífi en hún hefur þjáðst af hvítblæði frá tveggja ára aldri. Þegar hún byrjaði í meðferð á sínum tíma þurfti hún að fá beinmerg, blóðkorn og ýmislegt fleira gefið og þá helst frá sem nánustum fjölskyldumeðlim. En þar var einn hængur á: Hvorki foreldrar hennar né eldri bróðir hennar, Jesse, hentuðu sem gjafar.

Foreldrar hennar bregða þá á það ráð í samráði við lækni að sérsníða þriðja barn sitt með glasafrjóvgun svo að það geti séð Kate fyrir „varahlutum“. Þetta barn hlýtur nafnið Anna og það er hún sem byrjar á því að segja söguna frá sínum sjónarhóli.

Þegar kvikmyndin gerist hefur Anna margsinnis gengist undir aðgerðir til að hjálpa systur sinni og nú er henni ætlað að gefa henni annað nýra sitt. Þá fær hún nóg og ákveður að lögsækja móður sína. Það þarf varla að taka fram að þetta skapar gríðarlega togstreitu innan fjölskyldunnar, sem áhorfandinn fer ekki varhluta af, þar sem kvikmyndin beinir sjónum sínum listilega að einni persónu í einu, sem kemur sinni meiningu á framfæri, óritskoðað og frá hjartanu.

Það mæðir hvað mest á Cameron Diaz sem fer með hlutverk hinnar sterku móður, en hún berst með kjafti og klóm fyrir dóttur sína, þó hún eigi til að gleyma að hún á tvö önnur börn. Hún fer ágætlega með sitt hlutverk og það er hressandi að sjá hana í dramatískari gír en oft áður. Hin unga Abigail Breslin sem er flestum kunnug úr hinni lágstemmdu Little Miss Sunshine er líka sannfærandi, þó að hún rokki á milli þess að vera gömul sál og lítil, barnaleg stúlka á stundum, en ef til vill var persónunni ætlað að vera þannig. Sofia Vassilieva hefur ekki mikla reynslu, en í hlutverki Kate tekst henni að sýna bæði stóíska ró þess sem er búinn að sætta sig við aðstæður sínar og barnalegan unglinginn sem býr undir yfirborðinu. Hinn eitursvali Alec Baldwin kemur líka skemmtilega á óvart í hlutverki lögfræðings Önnu.

Vonleysið sem brýst reglulega út hjá persónunum er oft brotið upp af fallegum endurminningum eða litlum brandara, þannig að þessi fallega og átakanlega kvikmynd hlýjar manni bæði um hjartaræturnar og rífur í þær.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Drag Me to Hell
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Óhugnanleg en stutt í húmorinn
Það er oft litið á hryllingsmyndir sem óæðri kvikmyndagerð. Þær eru vissulega oft á tíðum ódýrari í framleiðslu og leikstjórar þeirra ekki eins reyndir og gengur og gerist. Hins vegar gerist það af og til að reyndir leikstjórar fá fjármagn til að ráðast í slíkar myndir. Frægasta dæmið er líklega þegar Stanley Kubrick gerði The Shining eða þegar Roman Polanski gerði Rosemary‘s Baby.

Leikstjóri Drag Me To Hell er Sam Raimi, sá hinn sami og leikstýrði Spiderman myndunum. Hann vakti hins vegar fyrst á sér athygli þegar hann leikstýrði Evil Dead þríleiknum. Evil Dead myndirnar eru gerðar með litlu fjármagni en svo skemmtilega skrifaðar og leikstýrt að þær urðu sannar „cult“ myndir. Eftir að hafa leikstýrt Spiderman myndunum er Sam Raimi nú orðinn heimsfrægur og kominn með reynslu af því að gera stórar sumarmyndir.

Drag Me To Hell markar endurkomu leikstjórans í gerð hryllingsmynda og hann hefur engu gleymt. Myndin segir frá Christine Brown sem er bankastarfsmaður. Dag einn kemur gömul og frekar ófrýnileg kona í bankann og biður um greiðslufrest á húsnæðisláni sínu, enda stendur til að bera hana út. Christine hefur það í valdi sínu að fallast á beiðnina eða hafna henni en ákveður að hafna henni til að sýna yfirmanni sínum hversu hörð hún getur verið, enda á hún von á stöðuhækkun. Það fer þó ekki betur en svo fyrir henni að gamla konan leggur á hana þau álög að illur andi muni pynta hana næstu þrjá daga og síðan taka hana með sér til heljar. Við tekur örvæntingarfull leit Christine til að losna við álögin.

Drag Me To Hell er nokkuð svipuð Evil Dead myndunum í því að það er ávallt stutt í húmorinn. Myndin er gríðarlega óhugnaleg á köflum, jafnvel hörðustu harðjaxlar ættu að finna til með aðalpersónunni. Hins vegar er myndin stórkostlega fyndin inn á milli. Það er kostur leikstjórans að geta vakið þessar tilfinningar meðal áhorfenda. Myndin er því mikil rússíbanaferð allan tímann.

Davíð Örn Jónsson.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Angels and Demons
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Betri en Da Vinci lykillinn
Það hafa eflaust margir beðið eftir annarri kvikmynd úr smiðju metsöluhöfundarins Dans Browns, eftir að Da Vinci lykillinn var frumsýnd árið 2006. Angels & Demons er byggð á samnefndri bók Browns, sem sumum lesendum hans þykir raunar betri en Da Vinci lykillinn. Prófessorinn Robert Langdon (Tom Hanks) kemur hér aftur við sögu og tekur að sér það erfiða verkefni að leysa úr morðmáli innan veggja Vatíkansins og koma í veg fyrir stórfellda hryðjuverkaárás.

Umgjörð myndarinnar er öll hin glæsilegasta og sagan verulega spennandi, þrátt fyrir að myndin sé næstum tveir og hálfur tími að lengd. Vatíkanið bannaði leikstjóranum, Ron Howard, að kvikmynda í Vatíkaninu eða í kirkjum þess í Róm, í kjölfar fyrri myndarinnar, The Da Vinci Code, sem vakti ekki lukku þar. Howard og félagar komust hins vegar fram hjá því með því að senda ljósmyndara, dulbúna sem ferðamenn, til þess að taka þúsundir ljósmynda á Péturstorgi. Tókst þeim þannig að skapa stafræna eftirmynd Vatíkansins fyrir myndina – og útkoman er mjög sannfærandi.

Dulrænn heimur kirkjunnar heldur áfram að heilla áhorfendur, eins og í fyrri myndinni og kvikmyndaútgáfan af Angels & Demons er raunar betri en Da Vinci-lykillinn. Hanks stendur sig vel en Ewan McGregor er ekki síðri, og ánægjulegt að sjá hann aftur í stórmynd á hvíta tjaldinu. Þá var Stellan Skarsgaard einnig eftirminnilegur sem yfirmaður svissnesku lífvarðasveita páfans. Það verður spennandi að fylgjast með frekari ævintýrum hins geðþekka Langdons í framtíðinni, en eins og kunnugt er þá er von á nýrri bók um hann í haust, The Lost Symbol, og að sjálfsögðu hefur þegar verið ákveðið að kvikmynda hana, nema hvað!

María Margrét Jóhannsdóttir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Boat That Rocked
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Óstövandi lífsgleði beint í æð
Þessi glaðbeitta og snjalla saga fjallar um áhöfn á ansi sérstökum bát. Þetta eru helstu tónlistarmógúlar sjöunda áratugarins sem hafa lagst á eitt við að halda uppi Radíó Rokk, einu útvarpsstöðinni sem gefur skít í flest viðmið samfélags þess tíma. Líkt og þegar Elvis steig fyrst á stokk þá eru fjölmargir stífir jakkafatakallar sem beita sér fyrir því að halda æskulýðnum „óspilltum”.

Myndin fjallar að upplagi um leit yfirvalda að þessum litríka hóp plötusnúða sem spila óritskoðað rokk, bölva og stynja í beinni útsendingu.

Allt útlit myndarinnar er til fyrirmyndar og eru flestar persónurnar þess eðlis að ekkert annað tjóir en marglitað flauel, teinóttar buxur í öllum regnbogans litum og hattar með fjöðrum. Búningarnir einir og sér draga mann vel og rækilega inn í þann nostalgíurússíbana sem kvikmyndin er. Og jafnvel þó að áhorfandinn viti fátt um tímann og tónlistina, er auðvelt að smitast af taumlausri gleði og lífsþrótti plötusnúðanna sem lifa fyrir tónlistina og halda tónlistinni á lífi.

Persónusköpunin er einn helsti styrkleiki myndarinnar, þó að ekki séu þær allar djúpar. Það eru mörg kunnugleg andlit í leikarahópnum, en þeir sem kvikmyndin gæti síst verið án eru hinn gríðarlega fjölbreytti Philip Seymour Hoffman og hinn sérviskulegi Rhys Ifans. Kenneth Branagh leikur hið fullkomlega greidda „illmenni” sem þráir fátt heitar en að loka á Radíó Rokk og er skemmtilegt að sjá hvernig gráleitur raunveruleiki hans stangast sjónrænt á við litríkt og kaótískt lífið á bátnum góða.

Myndin er samkvæm sjálfri sér og heldur alltaf í jákvæðnina og glettnina, sama hvað dynur á persónunum og hvetur áhorfandann til að sleppa af sér beislinu og njóta lífsins. Þessi samsetning skilur margt eftir og maður fær virkilega eitthvað fyrir peninginn með því að taka frá kvöldstund og sjá þessa frábæru kvikmynd.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Alfreð Elíasson og Loftleiðir
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afskaplega vel unnin
Það er óhætt að segja að það sé töluverð gróska í kvikmyndagerð hér á landi sem er af öðrum toga en venjan hefur verið, þ.e. ekki á sviði leikinna mynda, en þær hafa verið hvað vinsælastar undanfarin ár. Nú fyrir skemmstu var Draumalandið frumsýnd í kvikmyndahúsum og nú rekur á fjörur bíógesta önnur vönduð kvikmynd, sem segir sögu Loftleiða og Alfreðs Elíassonar.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson kvikmyndagerðarmaður (20. öldin o.fl.) er maðurinn á bak við heimildamyndina Alfreð Elíasson og Loftleiðir. Hann lét þess getið í viðtali að myndin hefði verið fjögur ár í vinnslu, og það ætti engum að koma á óvart því hér er á ferðinni afskaplega vel unnin heimildamynd.

Samsetningin og uppbyggingin er til fyrirmyndar og ljóst að ráðist hefur verið í umfangsmikla heimildaöflun, m.a. í formi viðtala, ljósmynda og síðast en ekki síst afskaplega áhugaverðra myndskeiða úr sögu Loftleiða. Það má jafnframt gera ráð fyrir því að það hafi styrkt myndina að hún er byggð á bók, nánar tiltekið ævisögu Alfreðs, sem rituð var árið 1984 af Jakobi F. Ásgeirssyni, sem hefur ritað töluvert um sögu 20. aldarinnar, meðal annars um haftaárin – en saga Loftleiða eins og hún er sett fram í myndinni er einmitt ekki eingöngu fyrirtækjasaga heldur líka pólitísk saga landsins á eftirstríðsárunum og fram á áttunda áratuginn, saga einkaframtaksins í skugga ríkisafskipta og haftastefnu.

Þó myndin sé kannski helst til löng, þá er grunnt í húmorinn í viðtölum og samsetningu þeirra og yfirbragðið því létt þó sagan sé nokkuð dramatísk á köflum. Það er einnig nokkuð nýstárlegt sjónarhorn í heimildamyndagerð hér á landi að segja sögu fyrirtækis, þó þetta sé í raun jafnframt saga Alfreðs, og má kannski segja að um sé að ræða eins konar brautryðjendaverk að því leyti. Það er því óhætt að mæla með sögu Alfreðs og Loftleiða fyrir þá sem hafa þó ekki væri nema minnsta áhuga á sögu landsins eða sögu útrásarvíkinga þjóðarinnar um miðja tuttugustu öldina.

María Margrét Jóhannsdóttir.

Athugið að þessi dómur er byggður á "Director's Cut" útgáfu myndarinnar, sem sýnd var á frumsýningu 6. maí sl. og er 14 mínútum lengri en sú mynd sem fer í almenna dreifingu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terminator Salvation
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Versta myndin í seríunni
Terminator Salvation. Hér er komin fjórða myndin um tortímandann og sú fyrsta sem ekki skartar Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Sú framtíðarsýn sem kynnt er í myndunum er sú að tölvuheilinn Skynet, öðlast sjálfsvitund og reynir að útrýma mannkyni til að tryggja eigin framtíð. Með kjarnavopnum tekst Skynet að drepa meirihluta mannkyns, en eftirlifendur, undir stjórn Johns Connors, berjast á móti. Fyrstu þrjár myndirnar gerast fyrir þetta stríð og fjalla um tortímanda sem sendir eru aftur í tímann til að drepa John Connor meðan hann er ungur. Þessi mynd gerist hins vegar í framtíðinni og fjallar um stríðið gegn Skynet.

Það er Christian Bale sem fer með aðalhlutverkið í myndinni og er sá þriðji til að fara með hlutverk John Connor. Bale er frábær leikari og túlkar John Connor með öðrum hætti en áður. Hann er ekki lengur unglingur á gelgjuskeiði líkt og í Terminator 2 og ekki sá aumingi sem við sáum í Terminator 3. Sá John Connor sem við sjáum í þessari mynd er stríðsmaður. Bale gerir mikið fyrir myndina með þessari túlkun sinni.

Því miður þá er handritið afar gloppótt og eiginlega óspennandi. Hvað söguna varðar þá er fátt eftirminnilegt. Það mætti vel halda að Michael Bay hefði skrifað þetta handrit því það er fátt annað í því en heilalausar hasarsenur, og tölvugerð vélmenni að slást. En þó Michael Bay hefði getað skrifað handritið þá er ljóst að það er ekki hann sem leikstýrir, því útlit myndarinnar og tölvubrellur eru ekki beint það flottasta í dag. Yfir myndinni hvílir ákveðin MTV stemning. Leikmyndin er ófrumleg og kjánaleg.

Terminator Salvation er versta myndin í seríunni, á því leikur engin vafi.

Davíð Örn Jónsson.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
I Love You, Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Rétta meðalið
Rétta meðalið við öllu krepputalinu. John Hamburg leikstýrði gamanmyndinni Along Came Polly fyrir fimm árum og snýr nú aftur með gamanmynd í svipuðum dúr, I Love You, Man, en að þessu sinni fara þeir Paul Rudd og Jason Segel með aðahlutverkin. Segel er kunnastur fyrir að leika hinn geðþekka Marshall Eriksen í gamanþáttunum How I Met Your Mother en leikur hér allt annars konar persónu, kæruleysislegan og léttgeggjaðan náunga, Sydney Fife. Paul Rudd leikur Peter Klaven, sem er á leið í hnapphelduna en kemst að því að hann á engan góðan vin og einsetur sér að finna frábæran svaramann áður en brúðkaupið fer fram. Eftir mikla leit kynnist hann Sydney Fife, sem setur líf hans á annan endann.

I Love You, Man er léttgeggjuð, eins og Sydney Fife, og brandararnir fjölmargir og flestir hitta vel í mark, þó myndin sé auðvitað ekki laus við smá væmni, en slíkt virðist einkenna flestar gamanmyndir frá Hollywood. Paul Rudd er að öðrum ólöstuðum stjarna myndarinnar. Rudd hefur leikið í fjölmörgum eftirminnilegum myndum í gegnum árin, meðal annars Clueless, The Object of My Affection og Anchorman og hefur undanfarin ár komið fram í ýmsum vinsælum gamanmyndum. Hann hefur klassískan bíómyndasjarma og er frábær gamanleikari, án þess þó að detta í þá gryfju að ofleika. Þá má ekki gleyma Jon Favreau sem er í stórskemmtilegu hlutverki í myndinni og ferst honum það vel úr hendi eins og flest annað í gegnum tíðina.

I Love You, Man er formúlugamanmynd en samt sem áður vel yfir meðallagi sem slík, bráðfyndin og í raun einmitt rétta meðalið við öllu krepputalinu um þessar mundir.

María Margrét Jóhannsdóttir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Knowing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Flott og vel gerð
Ég hafði fyrirfram blendna tilfinningar gagnvart þessari mynd. Nicholas Cage hefur ekki beint verið ávísun á góða mynd en hins vegar þá er leikstjórinn, Alex Proyas, mikill snillingur. Niðurstaðan er einhvers staðar þarna á milli.
Söguþráðurinn er frumlegur og áhugaverður. Tímahylki er grafið í jörðu um miðja 20. öldina. Þegar það er grafið upp mörgum áratugum seinna finnst þar kóði sem geymir spádóma um öll helstu stórslys síðustu áratuga og nokkur sem eiga enn eftir að gerast. Sá sem þetta uppgötvar er John Koestler (Nicholas Cage), prófessor við MIT. Eftir að hafa orðið vitni að stórslysi á sama tíma og stað og spádómurinn spáði fyrir um, fer hann að leita leiða til að hindra að næstu stórslys sem skjalið spáir fyrir um, verði að veruleika.
Myndin er mjög flott og vel gerð. Ég vil ekki taka dæmi úr myndinni, en eitt atriði í myndinni er sérstaklega flott. Það er fyrsta stórslysið sem aðalpersónan verður vitni að. Það er augljóst að það er hæfileikafólk á bakvið myndavélarnar. Því miður er ekki hægt að segja það sama um fólkið sem er fyrir framan myndavélarnar. Nicholas Cage er alltaf eins, algjörlega ótrúverðugur. Það sama má segja um mótleikara hans, Rose Byrne, sem fer með aðalkvenhlutverkið. Hlutverk hennar er að vísu illa skrifað sem e.t.v. afsakar framistöðu hennar. Í myndinni er persónan algjörlega vonlaus.

Þrátt fyrir það þá er myndin ágæt skemmtun. Sagan er áhugaverð og vel útfærð. Myndin er mjög spennandi alveg frá upphafi og varla hægt að finna dauðan punkt. Eins og við mætti búast í mynd eftir Alex Proyas er heildarútlit myndarinnar mjög flott og tónlist hennar í hæsta gæðaflokki. Sérstaklega fannst mér hann nota 7. sinfóníu Beethovens vel, en hún er eins konar stef í myndinni.

Knowing er stórslysa mynd með Sci-fi áherslu. Sem stórslysamynd er hún mjög vel heppnuð, þ.e. hún uppfyllir öll skilyrði stórslysamynda. Hún er flott, spennandi og það eru magnaðar senur í henni. Sem Sci-fi mynd er hún einnig góð því hún bíður upp góðan söguþráð, spennu og skemmtilegt twist. Ég tel því óhætt að mæla vel með þessari stórmynd.

Davíð Örn Jónsson

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Draumalandið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mynd sem markar tímamót
Draumalandið er kvikmynd sem markar ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndalist. Hún er beitt og skemmtileg og í myndinni eru mörg óborganleg myndbrot og oft á tíðum er ekki annað hægt en að skella upp úr. Þó má ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að um áróðursmynd er að ræða, en ekki hreinræktaða heimildarmynd, og í raun fer fyrri helmingur myndarinnar í það að uppfylla allar kröfur og staðla sem góðar áróðursmyndir þurfa að búa yfir. Það er synd því seinni helmingur myndarinnar stendur vel fyrir sínu og í raun óþarfi að beita ódýrum áróðursbrellum. Staðreyndirnar tala sínu máli í síðari hlutanum og skynsamt fólk getur gert upp sinn eigin hug. Það skal enginn halda að hér sé á ferðinni eitthvað annað en áróðursmynd og það er kaldhæðnislegt að kvikmyndin skuli byrja á umfjöllun um það hvernig almenningi er stýrt með ótta, þar sem slík brögð eru óspart notuð í myndinni. Háalvarleg og ógnvekjandi tónlist er notuð til að undirstrika staðreyndir, atriði virðast oft tekin úr samhengi og æsilegar fréttaklippur eru notaðar til þess að viðhalda ákveðinni spennu og ótta hjá áhorfandanum. Svo koma falleg myndbrot frá því í “gamla daga”, þegar allt var saklaust og hreint.

Í raun fer meiri hluti fyrri hluta myndarinnar í það að uppfylla allar kröfur og staðla sem góðar áróðursmyndir þurfa að búa yfir og orðið „tilfinningaklám“ er það sem kemur upp í huga manns. Hent er upp á tjaldið til skiptis fallegum myndum af brosandi íslenskum börnum annars vegar og myndum af stóriðjuframkvæmdum og fátæku fólki á Indlandi hins vegar. Allt mjög dramatískt, eitthvað sem Michael Moore gæti verið stoltur af. Talað er um hvernig störfin í gamla daga voru raunverulegri en í dag – sérkennilegur óður til sjálfsþurftarbúskapar! – og því haldið fram að hagvöxtur sé slæmur. Sýnd eru fjölmörg myndbrot þar sem ummæli stjórnmálamanna eru látin hljóma ankannalega og áhorfandinn fær ekki að vita í hvaða samhengi þau voru látin falla. Stundum finnur maður svolítið til með sveitafólkinu sem hyllti Alcoa forstjórann líkt og um rokkstjörnu væri að ræða. Það vildi bara fá góða vinnu í álverunum og ekki datt þeim í hug að andlit þess myndu birtast í kvikmynd af þessu tagi.

Einkar áhugavert var sjónarhorn hagfræðingsins Heiðars Más Guðjónssonar sem benti á það hvernig ríkið hefði verið að ryðja öðrum atvinnutækifærum út af borðinu með því að taka sjálft þátt í svona stórtækum aðgerðum. Ef til vill voru önnur atvinnutækifæri fyrir fólkið í landinu en ríkið kom í veg fyrir slík tækifæri með miðstýringu sinni og vaxtahækkunum til þess að kæla aðra hluta atvinnulífsins á meðan ríkið sjálft skipulagði stórframkvæmdir. Myndin er óvægin í garð stjórnmálamanna, sem eru gagnrýndir fyrir að vilja “sveigja reglurnar”, og átakanlegt er að horfa upp á bændur sem þurfa kannski að horfa upp á það að missa jarðir sínar gegn eigin vilja. Þegar ríkið á allt og hefur vit fyrir öllum, hvert á þá bóndinn að snúa sér?

Draumalandið er kvikmynd sem markar ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndalist. Hún er beitt og skemmtileg og í myndinni eru mörg óborganleg myndbrot og oft á tíðum er ekki annað hægt en að skella upp úr. Það er synd að höfundar hafi fallið í þá freistni að gera skemmtilega áróðursmynd frekar en að gæta hlutleysis því málstaðurinn er góður og staðreyndirnar tala sínu máli. Fallegar náttúrumyndir og íslensk tónlist njóta sín vel og að sýningu lokinni langar mann helst upp á hálendi að njóta náttúrunnar - ef hún er þá enn fyrir hendi.

María Margrét Jóhannsdóttir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Role Models
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fín fram að hléi
Félagarnir Danny og Wheeler eru dæmdir til að sinna samfélagsþjónustu í 150 klukkutíma og taka að sér að vinna með tveimur drengjum, sem eins konar fyrirmyndir þeirra, með óvæntum afleiðingum.

Paul Rudd sem er í hlutverki hins lífsleiða Danny er gríðarlega sterkur gamanleikari með mikla útgeislun. Hann hefur verið mikið í aukahlutverkum í gæðamyndum á borð við 40 Year Old Virgin, Anchorman og Knocked Up en vonandi verður hann meira áberandi í aðalhlutverkum í framtíðinni. Þá stendur Seann William Scott sig einnig vel í hlutverki Wheelers.

Myndin byrjar mjög vel, húmorinn er ferskur og skemmtilegur en þegar líða tekur á fjarar hún út, húmorinn verður flatari og sagan fyrirsjáanlegri og væmnari. Það er því vel þess virði að horfa fram að hléi.

María Margrét Jóhannsdóttir
kvikmyndir.com
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Valkyrie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hörkuspennandi
Valkyrie er sönn saga af tilræði við Adolf Hitler árið 1944. Hreyfingin sem stóð að tilræðinu var vel mönnuð, þar komu saman áhrifamenn úr hernum sem og úr heimi stjórnmála, sem voru þess vissir að ef Þýskaland ætti að lifa af stríðið þá þyrfti að fjarlægja Hitler. Myndin segir söguna af tilræðinu, frá því þegar Stauffenberg gengur til liðs við andspyrnuna og til enda. Þó hér sé um spennumynd frá Hollywood að ræða, þá fylgir hún sögulegum staðreyndum eftir í öllum meginatriðum.

Myndin fékk mikið umtal áður en ráðist var í tökur á henni. Fór það fyrir brjóstið á ættingjum Stauffenbergs, sem og öðrum Þjóðverjum, að hin umdeildi Tom Cruise færi með hlutverk hans. Eftir að hafa séð myndina þá get ég þó ekki annað sagt en að hann hafi staðið sig ágætlega. Í öðrum hlutverkum er einungis toppleikara að finna. Kenneth Branagh fer með hlutverk Henning von Treskow, Bill Nighy er Friedrich Olbricht , Terence Stamo er Ludwig Beck og Tom Wilkinson er hinn alræmdi Friedrich Fromm. Þetta eru allt hlutverk sem nauðsynlegt var að hafa rétta leikara í, og svo fór það.

Leikstjórinn Bryan Singer hefur ákveðið að fara þá leið að gera myndina sem raunverulegasta og gera atburðarrásinni góð skil. Í myndinni, sem er tveir tímar á lengd, er enginn dauður punktur og ekkert bull sem ekki tengist sögunni, eins og svo oft verður. Þá er myndin alveg gríðarlega flott. Það er gaman að sjá Berlín og höfuðstöðvar Hitlers endurgerðar með þessum hætti. Allt þetta skapar rétta andrúmsloftið fyrir svona sögulega mynd.

Helsti galli myndarinnar er tungumálið, en myndin er á ensku. Þó það sé auðvitað skiljanlegt að bandarísk mynd skuli vera á enskri tungu, þá tel ég að hún hefði virkað betur á þýsku. Þetta eru atburðir sem eru nálægt okkur í tíma og áhorfendur átta sig auðveldlega á því að mennirnir á skjánum töluðu ekki ensku.

Það verður þó ekki tekið frá myndinni að hún er hörkuspennandi og skemmtileg.

Davíð Örn Jónsson
Kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Curious Case of Benjamin Button
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Skilur eftir ýmsar spurningar
The Curious Case of Benjamin Button er byggð á smásögu eftir stórskáldið F. Scott Fitzgerald og fjallar í stuttu máli um mann sem fæðist gamall og yngist á meðan aðrir eldast. Hugmyndin er frumleg og sérkennileg og þegar sest er fyrir framan bíótjaldið á maður von á því að David Fincher, sá frábæri leikstjóri, töfri fram spennandi dramatík í kringum hugmyndina. Hins vegar fer myndin afskaplega hægt af stað og fyrsta klukkutímann, og vel það, er myndin því miður ekkert annað en hugmyndin sjálf - hún nær sér engan veginn á flug. Förðunin er vissulega mögnuð og sviðsmyndin sömuleiðis, en slíkt nær ekki eitt og sér að heilla áhorfendur nema upp að vissu marki. Hins vegar lifnar myndin loksins við þegar Benjamin er kominn á miðjan aldur, um fertugt - og sagan verður í meira mæli ástarsaga. Það eru þau Brad Pitt og Cate Blanchett sem halda myndinni uppi og standa sig bæði með prýði, enda Pitt tilnefndur til óskarsverðlauna. Leikstjórinn Fincher er einnig loksins tilnefndur til óskarsverðlauna og hreppir þau vonandi, þó þetta sé alls ekki hans besta mynd - það er sennilega óhætt að segja að Seven, Fight Club og The Game séu allar betri myndir - en þetta er líklega aðgengilegasta myndin hans, mesta stórmyndin, og því ekki útilokað að hann næli sér í verðskuldaða styttu. Fyrri hluti myndarinnar minnir óneitanlega á mynd eins og Forrest Gump, en nær alls ekki sömu hæðum og hún, en síðari hlutinn af þessari löngu mynd (166 mínútur) er virkilega vel heppnaður, dramatískur og spennandi og skilur eftir sig ýmsar spurningar um lífið og tilveruna.

Ragnar Jónasson
Kvikmyndir.com
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Seven Pounds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Falleg mynd
Kvikmyndin Seven Pounds hefst undarlega. Ben Thomas (persóna Will Smiths), hringir í neyðarlínuna og tilkynnir eigið sjálfsmorð. Strax er ljóst að hér er ekki á ferðinni einhver dæmigerð Will Smith mynd. Hinn alvörugefni Will Smith er mættur til leiks. Fljótlega telur hann upp nöfn á sjö manneskjum, sem áhorfandinn fær að kynnast eftir því sem líður á myndina. Þau eru rauði þráðurinn sem bindur söguna saman. Tóninn er sleginn og sagan byrjar á byrjun.

Seven Pounds er skemmtilega sniðin. Leikstjórinn notast við tímaflakk á söguþræðinum, sem er afar viðeigandi. Myndin er byggð í kringum hugarheim Thomasar og hann er að ganga í gegnum sérstakan kafla í lífi sínu, sem kallar á mikið af endurminningum. Myndin er á köflum full langdregin. Samræðurnar eru of hægar og óáhugaverðar. Niðurstaðan verður samt sem áður sú, að sum þessara hægu atriða eru beinlínis nauðsynleg. Sagan er svo flókin, þá helst persónugerð Thomsarar, að það verður að kafa dýpra til þess að öðlast raunsæjan skilning á Thomas. Undir lokinn er áhorfandinn orðinn kunnugur þessum geðþekka en undarlega manni og það hjálpar til við að skilja myndina.

Will Smith er ágætur leikari. Hann virðist leggja sig allan fram við túlkunina og býr að þeim hæfileikum, sem hafa komið honum svona langt. Hann er með sterka nærveru á skjánum og er hrífandi. Að mínu skapi er hann ekki í stakk búinn til að taka svo stórt og erfitt hlutverk á sig. Það má vel vera að hans fyrri hlutverk skemmi trúverðugleika hans, en það er erfitt fyrir hinn almenna áhorfanda að líta fram hjá þeim. Ég get nefnt knippi af öðrum leikurum sem hefðu hentað betur í hlutverkið.

Rosaria Dawson fer með næst stærsta hlutverk myndarinnar. Hún er máluð voða föl og leikur sjúkling, Það mætti næstum segja það sama og um Smith hér að framan. Hún er engan vegin sannfærandi. Dawson lýður þó fyrir það að leika slæman karakter, ólíkt Smith.

Seven Pounds er falleg mynd. Hún byggir upp góða sögu á sniðugan og áhugaverðan máta. Þrátt fyrir að meiri leiksigrar hafi sést á tjaldinu, þá verður það ekki af myndinni tekið að hún hrífur áhorfandann. Niðurstaða myndarinnar er ánægjuleg og boðskapurinn fallegur. Helsti kostur myndarinnar eru nokkur sérstaklega vel unnin og sterk atriði. Til dæmis má nefna flest endurminningaratriðin, sem eru smekklega gerð. Á köflum hundleiddist mér þessi mynd og hún virtist ekki stefna neitt. En þessi atriði héldu manni við efnið. Þau lyfta myndinni upp á hærra plan og gera það að verkum að Seven Pounds verður ekki flokkuð með þessum hefðbundnu boðskapsmyndum.

Gísli Baldur Gíslason
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Zack and Miri Make a Porno
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Skemmtileg gamanmynd

Kevin Smith sló í gegn á sínum tíma með myndirnar Clerks, Mallrats og Chasing Amy. Það fór svo að síga á ógæfuhliðina og hann missti "street credit"-ið sitt algjörlega þegar hann leikstýrði myndinni Jersey Girl með þeim Ben Affleck og Jennifer Lopez. Nú er þó farið að birta til á nýjan leik.

Zack og Miri eru æskuvinir sem leigja saman íbúð. Þau eru í miklum fjárhagsvandræðum og þegar íbúðin þeirra er loks orðin rafmagnslaus og vatnslaus þá neyðast þau að taka til sinna ráða. Þau fá þá hugljómun að gera saman klámmynd með bæði fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Auðvitað verða þau ofur ástfangin eftir fyrstu atrennuna fyrir framan myndavélarnar en hvert skal haldið eftir slíka tilburði?

Nokkrar stjörnur leika í myndinni til að mynda klámstjarnan Traci Lords í hlutverki Bubbles sem og Jason Mews (Jay úr Clerks) í hlutverki Lesters. Í heildina á litið er þetta skemmtileg gamanmynd, full gróf á köflum en með rómantísku ívafi.

María Margrét Jóhannsdóttir
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Religulous
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Tveir skemmtilegir saman
Nú hafa tveir skemmtilegustu menn samtímans leitt saman hesta sína og skapað stórskemmtilega bíómynd. Það eru þeir Bill Maher sem sló rækilega í gegn með sjónvarpsþáttum sínum Politically Incorrect og Larry Charles sem leikstýrði og framleiddi Curb your Enthusiasm og Borat. Í Religulous eru skipulögð trúarbrögð tekin fyrir og Maher rökræðir við marga kverúlanta og venjulegt trúað fólk um hvernig trúarbrögð ganga bara ekki upp og geta þjónað hættulegum tilgangi. Maher fer um allan heim og ræðir við bókstafstrúarfólk af öllum stærðum og gerðum, hvort sem það eru kristnir vörubílsstjórar, múslimar, öldungardeildarþingmenn eða heittrúaðir gyðingar sem þróa tæki sem gera manni auðveldara að halda Sabbath daginn heilagann án þess þó að gefa eftir í lífsgæðum .

Religulous er frábærlega fyndin og skemmtileg mynd. Þetta er ekki heimildarmynd í strangasta skilningi þess orðs, en að því er varðar skemmtanagildi og góðan boðskap fær hún hiklaust fullt hús stiga og vekur upp mikilvægar spurningar um það sem alltof margir taka sem sjálfsagðan hlut - trú

María Margrét Jóhannsdóttir
kvikmyndir.com
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
W.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ekki eins góð og Nixon
W. er ævisaga 43. forseta Bandaríkjanna, George W. Bush. Í dag er varla umdeildari mann að finna og verður það því að teljast furðulegt að ætla að kvikmynda sanngjarna ævisögu mannsins. Myndin segir sögu George Bush frá því hann er í Yale og þangað til loka fyrra kjörtímabils hans sem forseta. Honum er lýst sem pabbastrák sem reynir aftur og aftur að gera faðir sinn stoltan af sér án árangurs. Mestu púðri eyðir myndin í aðdraganda íraksstríðsins og mögulegar ástæður þess, það miklu að mest öll myndin gengur út á það. Engum tíma er veitt í önnur afrek Bush sem forseta.

Það er e.t.v. helsti galli myndarinnar hvað leikstjórinn einblínir á aðdraganda stríðsins við Írak. Það er eins og Bush hafi engan annan tilgang í lífinu en að bylta Saddam Hussein. Þetta er þó vandamálið við að gera ævisögu bandaríkjaforseta sem enn situr í embætti. Í fyrsta lagi þá liggja ekki allar upplýsingar fyrir, flest öll skjöl frá tímabilinu eru enn lokuð almenningi auk þess sem allir hafa skoðun á manninum, jákvæða eða neikvæða. Slíka ævisögu er erfitt ef ekki ómögulegt að gera fyrr en rykið hefur sest.

W. er önnur ævisaga Bandaríkjaforseta sem Oliver Stone gerir, en sú fyrri var myndin Nixon. Samanburðurinn við þá mynd er ekki hliðhollur W.. Sú mynd hafði mun meira kjöt á beinunum eftir áratugalangar rannsóknir á Richard Nixon og forsetatíð hans. W. er vel mönnuð, það eru velkunnir leikarar í flestum hlutverkum. Josh Brolin stendur sig ágætlega sem George W Bush en það eru þó óneitanlega tveir menn sem stela senunni. Það eru þeir James Cromwell sem faðirinn, George H W Bush og Scott Glenn sem Donald Rumsfeld. Þeir eiga báðir stórleik og ná persónunum sem þeir leika mjög vel.

Oliver Stone tekst ekki eins vel upp með þessa mynd og aðrar sem hann hefur gert. Hún er gerð á mjög skömmum tíma miðað við aðrar myndir og það sést á köflum að hún er gerð á fljótvirknislegan hátt. Sagan er vissulega áhugaverð en illa sögð.

Davíð Örn Jónsson.
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Quantum of Solace
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Besta spennumynd ársins
Daniel Craig er mættur aftur sem James Bond. Síðasta Bond myndin, Casino Royale var nýtt upphaf fyrir seríuna sem hafði staðnað og orðið föst í gömlum og úreltum klisjum. Hinn nýi Bond er mannlegri og heilstæðari sem persóna. Í Casino Royale verður hann ástfangin af hinni glæsilegu, Vesper Lynd. Þegar í ljós kemur að glæpasamtök hafa verið að neyða hana til samstarfs við sig og til að svíkja Bond, fremur hún sjálfsmorð.

Quantum of Solace hefst þar sem Casino Royale endaði. Bond er búinn að handsama mannin sem kúgaði Vesper Lynd og hefur rannsókn á glæpasamtökunum sem hann er hluti af. Engar upplýsingar eru til um þessi samtök hjá bresku leyniþjónustunni, MI5. Þegar það kemur síðan í ljós að hátt settir aðilar innan MI5 eru á mála hjá samtökunum verður það augljóst að hversu öflug þessi samtök eru. Á sama tíma eru yfirmenn MI5 ekki vissir um að þeir geti treyst James Bond sem virðist hafa meiri áhuga á að hefna fyrir dauða Vesper Lynd.

Quantum of Solace er fyrr í gang en Casino Royale og það er mun meiri hasar í henni. Þó er einnig í henni að finna allt það sem gerði Casino Royale að klassík. Plottið í myndinni er afar áhugavert og vondi karlinn, Dominic Greene er með þeim svalari. Túlkun Daniel Craig á James Bond er að mínu mati betri en þeirra sem á undan honum fóru með hlutverkið. Líklega þá á persónusköpunin og handritið stóran hluta í því. Eitt sterkasta atriðið í myndinni er þegar James Bond heldur utan um deyjandi vin sinn, það atriði eitt segir okkur meira um Bond en flest önnur.

Þessi mynd skartar einnig einu flottasta atriði Bond seríunnar. Bond hefur komist að því að lykilmenn í samtökunum ætla að hittast í óperunni, þar sem þeir ræða saman í gegnum talstöðvar á meðan á sýningu stendur. Verið er að sýna lokin á fyrsta þætti óperunnar Tosca eftir Puccini þegar Bond kemur upp um þá.

Þeir sem voru hrifnir af Casino Royale verða ekki fyrir vonbrigðum með Quantum of Solace. Hún er hröð, fyndin og vel skrifuð. Besta spennumynd ársins hingað til.

Davíð Örn Jónsson
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nights in Rodanthe
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Góð afþreying
Hjartaknúsarinn Richard Gere og ofurskvísan Diane Lane leiða saman hesta sína í dúnmjúkri og súkkulaðihjúpaðri ástarsögu. Paul Flanner læknir (Richard Gere) á í erfiðleikum og fer til Norður Karólínu og gistir á hóteli þar sem Adrienne Willis (Diane Lane) tekur á móti honum. Þau tengjast sterkum böndum og í faðmi hvors annars finna þau ákveðinn styrk sem gerir þeim kleift að halda áfram með lífið.

Nights in Rodante er byggð á sögu Nicholas Sparks sem gerði garðinn frægan með sögu sinni The Notebook. Þessi mynd nær hins vegar ekki sömu hæðum og The Notebook en ástarsamband Gere og Lane er ekki nógu trúverðugt og sagan eilítið fyrirsjáanleg. Hins vegar býr myndin og leikararnir yfir ákveðnum sjarma sem ekki er hægt að gera lítið úr. Myndin er því góð afþreying og ómissandi fyrir aðdáendur rómantískra mynda enda allt of lítið framleitt af þeim.

María Margrét Jóhannesdóttir
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
My Best Friend's Girl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ófrumleg, en má hafa gaman af
Tank (Dane Cook) er gaurinn sem fær þína fyrrverandi til þess að hugsa vel til þín þó þú hafir verið latur sóði. Í samanburði við Tank þá ertu draumur! Drengir í ástarsorg leita til Tank í von um að kærustunni fyrrverandi snúist hugur. Tank er óforbetranlegur dóni sem fær allar konur til þess að hlaupa öskrandi út en þegar Tank fer á stefnumót með Alexis (Kate Hudson) sem er ástin í lífi besta vinar hans þá breytist allt.

Kate Hudson er viðkunnanleg leikkona og Dane Cook skilar sínu líka mjög vel. Alec Baldwin stelur hins vegar senunni í sínu litla hlutverki sem faðir Tanks og er stórskemmtilegur. Efnistök myndarinnar eru ekki frumleg en það má þó hafa gaman að myndinni þrátt fyrir það.

María Margrét Jóhannsdóttir
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
How to Lose Friends and Alienate People
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bráðskemmtileg og meinfyndin
Simon Pegg sem sló svo eftirminnilega í gegn í myndunum Shaun of the Dead, Hot Fuzz og Run Fatboy Run er að þessu sinni í hlutverki hins óslípaða og seinheppna breska blaðamanns Sidney Young.

Sidney er boðin vinna hjá virtu tímariti í New York en það gengur ekki vel hjá honum að falla inn í hópinn og ná árangri. Hann er bæði uppátækjasamur og óþægilega hreinskilinn sem fer ekki vel í hina jakkafataklæddu framapotara tímaritaheimsins.

Kvikmyndin How to Lose Friends and Alienate People er bráðskemmtileg og meinfyndin gamanmynd með rómantísku ívafi sem allir ættu að hafa gaman af.


María Margrét Jóhannsdóttir.
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie Bartlett
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyndin og öðruvísi

Charlie Bartlett er gríðarlega klár unglingur sem á erfitt með að finna sér stað í lífinu nema með alls kyns uppátækjum sem eru síður en svo uppbyggileg til langs tíma litið. Ásetningur hans er þó góður. Þegar hann ákveður að gerast sjálfstætt starfandi geðlæknir innan veggja nýja skólans fara vinsældir hans vaxandi og þá fara hjólin að snúast með óvæntum afleiðingum.

Robert Downey Jr. stendur sig vel í hlutverki skólastjórans sem og hinn knái leikari Anton Yelchin sem fer með aðalhlutverkið. Myndin nær þó ekki að hitta alveg í mark enda losaraleg á köflum. Charlie Bartlett er fyndin og öðruvísi gamanmynd sem allir ættu að geta notið vel.

María Margrét Jóhannsdóttir
Kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Reykjavík-Rotterdam
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sterkt handrit
Það er virkilega ánægjulegt að sjá mynd sem fer verulega fram úr væntingum. Íslenskar glæpamyndir hafa ekki átt sérlega mikilli velgengni að fagna, ef til vill ekki síðan Sódóma Reykjavík var og hét. Oft hafa íslenskar myndir, glæpamyndir sem aðrar, liðið fyrir lélegt handrit og stundum engu líkara en að myndin hafi verið látin klárast þegar filman var búin, óháð framvindu sögunnar. Hér er þó annað upp á teningnum og mikið snilldarbragð að fá Arnald Indriðason til að skrifa handrit að myndinni, ásamt leikstjóranum Óskari Jónassyni. Handritið er sterkasti hluti myndarinnar, trúverðugt, kómískt, vel uppbyggt og - ótrúlegt en satt, miðað við íslenska mynd - virkilega spennandi á köflum og sagan heldur athygli frá upphafi til enda. Óskar hefur ekki verið sérlega afkastamikill kvikmyndaleikstjóri og síðasta mynd hans, Perlur og svín, vakti ekki sérlega miklar vinsældir, en hann snýr aftur með látum að þessu sinni. Það er líka frábært að sjá Baltasar Kormák (sem framleiðir myndina einnig) fara með aðalhlutverkið og gerir hann það feykilega vel, enda ekki við öðru af búast. Ingvar E. Sigurðsson er einnig í burðarhlutverk, en hins vegar á bæði góða og slæma spretti að þessu sinni. Af öðrum leikurum sem eftirminnilegir eru má helst nefna Þröst Leó Gunnarsson og Jóhannes Hauk Jóhannesson, auk þess sem Jörundur Ragnarsson stimplar sig enn og aftur inn sem einn af efnilegustu leikurum okkar. Þá má í lokin sérstaklega hrósa Háskólabíói fyrir það að sýna myndina í Stóra salnum, sem er allt of sjaldan notaður núorðið fyrir kvikmyndasýningar.

María Margrét Jóhannsdótir
kvikmyndir.com
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hamlet 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Súr húmor
Dana Marschz er vonlaus leikari. Einu hlutverkin sem honum buðust voru í auglýsingum sem enginn annar vildi vera í og nú býðst honum ekki einu sinni það. Hann gerðist því leiklistarkennari í framhaldsskóla, því eins og hann orðaði það þá vildi hann geta kennt öðrum það sem hann gat ekki sjálfur. Ár eftir ár setur hann upp hræðilegar nemendasýningar í skólanum sem engin hefur áhuga á. Loks ákveður skólastjórnin að hætta að kenna leiklist við skólann. Þá ákveður Marschz að síðasta leikritið sem hann setur upp verði eitthvað afar sérstakt og því semur hann leikritið Hamlet 2, en efnistök þess verða til þess að skólayfirvöld reyna að gera hvað sem er til að hindra sýningu þess.

Það er grínistinn Steve Coogan sem fer með hlutverk Dana Marschz. Myndin snýst að mestu um aðalpersónuna og þannig framistöðu Coogan. Hann stendur sig nokkuð vel, hann er ýktur en fer þó ekki yfir strikið. Aðrar persónur í myndinni skipta minna máli og eru til staðar að er virðist einungis til að gefa Coogan tækifæri til að vera fyndinn. Þetta fyrirkomulag virkar ágætlega í þessari mynd.

Hamlet 2 má líka við Al Yankovich myndina UHF sem margir muna væntanlega eftir. Húmorinn er súr og jafnvel myndrænn á köflum. Þá er alveg óhætt að segja að myndin sé langt frá því að vera PC, eins og það er kallað. Hamlet 2 er mynd sem flestir ættu að hafa gaman af. Hún er ekkert stórvirki en mjög létt og góð skemmtun.

Davíð Örn Jónsson
kvikmyndir.com
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Burn After Reading
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Komnir á kunnuglegar slóðir
Leikarahópurinn bjargar því sem bjargað verður í þessari nýju Coen-bræðra mynd. Þeir bræður eru komnir á kunnuglegar slóðir eftir meistaraverkið No Country for Old Men í fyrra og reyna hér að endurnýta að einhverju leyti húmorinn úr Fargo og The Big Lebowski, en án mikils árangurs. Handritið er sérlega kjánalegt og flatt og brandararnir fáir, en bestu sprettina á þó Brad Pitt í frábæru hlutverki. John Malkovich fer með aðalhlutverkið, og gerir það vel, en myndin fer þokkalega af stað þegar segir frá brotthvarfi hans frá CIA og ákvörðun hans um að rita endurminningar sínar. Það fer þó fljótt að halla undan fæti þegar Frances McDormand, George Clooney og Pitt flækjast inn í málið. Allir eiga leikrararnir þó hrós skilið, enda frábærir hæfileikamenn og -konur þar á ferð, en án þeirra væri myndin hvorki fugl né fiskur.

María Margrét Jóhannsdóttir
kvikmyndir.com

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei