Mynd um Google á leiðinni?

Við höfum sagt frá myndinni um Facebook, samskiptavefinn sem Íslendingar nota af miklu kappi, sem væntanleg er núna í haust og heitir The Social Network. Nú gætu fleiri netsíðusögur ratað á Hvíta tjaldið.
JoBlo vefsíðan segir frá því að framleiðandinn Michael London ( sem framleiddi Sideways ) hafi tryggt sér réttinn að bókinni Googled: The End of the World As We Know It, en í henni er sögð saga stofnenda Google, þeirra Sergey Brin og Larry Page.
Social Network myndin er ekki sögð verða nein lofgjörð um stofnandann Mark Zuckerberg, nema síður sé, en talið er að Googled, bregði upp jákvæðari mynd af stofnendum Google, en The Social Network geri af Zuckerberg.
Einn af frösunum sem þeir félagar notuðu í árdaga Google var Don´t Be Evil, eða ekki vera illur, og mun myndin að því er talið er, fjalla um hvernig tveir „góðir strákar“ bjuggu til eitt vinsælasta fyirtæki í heimi.

Þetta verkefni virðist þó vera á byrjunarstigi, en úr þessu ætti að verða hin áhugaverðasta mynd.