Mortal Kombat verður hörð!

Fyrir helgi var birt tilkynning sem sagði að glæný Mortal Kombat-mynd væri farin í framleiðslu frá sama manninn og gerði netseríurnar frægu (smellið hingað til að skoða þá tilkynningu). Núna hefur leikstjórinn sjálfur, Kevin Tancharoen, ákveðið að lofa aðdáendum allt það sem þeir fengu ekki út úr netseríunni eða upprunalegu bíómyndinni frá 1995.

„Ég vil halla meira að raunsæi og minna að öllum töfrunum sem fylgja tölvuleikjunum. Þið megið eiga von á miklu harðari mynd heldur en seinustu tvær sem voru gerðar, en líka mynd sem gerir tilraun til þess að segja einhverja sögu,“ segir leikstjórinn. Hann bætir því við að hann hafi náð að semja við stúdíóið um að gera mynd sem er bönnuð innan 17 ára í bandaríkjunum (upprunalegu myndirnar voru með vægari aldursstimpil).

„Ég vil helst ekki mjólka blóðpolla að óþörfu, heldur í staðinn bara að leyfa því að vera sem þarf til að gera tóninn harðari og raunverulegri. Það síðasta sem ég vil að þetta verði er hallærislegt.“

Myndin er með öllum líkindum væntanleg á þarnæsta ári.

Mín skoðun:
Það eina sem ég veit að ég mun sakna óendanlega mikið úr gömlu myndunum er gamla þemalagið. Einhver sammála??