Mjallhvítarmynd fær titil

Myndin sem við höfum hingað til talað um sem „Untitled Snow White Project“ hefur fengið nafn: Mirror, mirror, eða Spegill, Spegill upp á íslensku. Það er ekki seinna vænna því myndin á að koma út eftir rúma fjóra mánuði, 16. mars 2012. Leikstjóri er Tarsem, sem á að baki raðmorðingjatrillirinn The Cell, ævintýramyndina The Fall, og svo Immortals, sem væntanleg er í mánuðinum. Þetta eru allt R-rated myndir – bannaðar innan 16 – þannig að það kemur á óvart að af þeim tveim útgáfum af Mjallhvíti sem eru væntanlegar skuli hans vera sú sem er barnalegri. En í nýlegu viðtali tjáði leikstjórinn sig aðeins um það:

„Mín mynd er barnamynd. Þeir spurðu mig hvort ég vildi gera myndina „Edgy“ en ég hafði engan áhuga á því. Þetta er barnamynd, en mín verk eiga það til að vera umdeild. Þegar þau eru fyrir börn eru þau ótrúlega barnaleg, og þegar það er hinsegin eru þau ótrúlega grafísk fyrir fólk. Bæði eru í lagi fyrir mig. Það er meðalmoðið sem ég er hræddur við.“

Varðarndi það að í hinni myndinni (Snow White and the Huntsman) fer Mjallhvít út og er að drepa fólk segir hann: „Ég hafði engann áhuga á því. Þegar ég er geri ofbeldisatriði, þá sleppurðu ekki með neitt annað en R. Þannig að ég vil gera barnamynd, ævintýri fyrir börn og fjölskyldur, og taka því eins og það er. Ef þú vilt reyna að gera eitthvað nýtt og gera Mjallhvíti „Edgy“ – þá spyr ég fyrir hvern? Fyrir Disney, eða Gaspar Noé? Hverskonar ofbeldi ætlarðu að nota? Ég hef ekki áhuga á því, ég fékk myndina sem ég vildi, og hún er öðruvísi.“

Annars var hann spurður í viðtalinu hvað myndin ætti að heita, og hann sagði það ekki í sínum höndum, en ef hann mætti ráða yrði nafnið bara „Snow“. En hann er sennilega sáttur með Spegill, Spegill líka. Annars er gaman að Mjallhvítarmyndirnar eru að reyna að aðgreina sig enn frekar og þessi titill vitnar um það. Það kemur líka betur og betur í ljós að þær munu eiga fátt sameiginlegt, þessi verður algjör barnamynd í ævintýralandi, hin meira í stíl við Hringadróttinssögu en Grimmsbræður.