Mjallhvít verður epísk

Ekki ein, heldur tvær nýjar stiklur fyrir ævintýramyndina Snow White & the Huntsman voru gerðar opinberar nú í morgun, önnur í hefðbundinni 2,5 mínútna lengd, en hin heilar fimm mínútur. Af þeim er óhætt að dæma að myndin verður í það minnsta af stærstu gerð.   Fyrri stiklan gefur mjög góða hugmynd fyrir tilfinningu myndarinnar, en sú seinni sýnir eiginlega aðeins of mikið fyrir minn smekk. Sú styttri er efst, sú lengri neðar:

Ég verð að viðurkenna að ég er seldur! Útlitið á myndinni er æðislegt, leikararnir passa vel í hlutverkin – gaman að sjá loksins eitthvað frá dvergunum – og þó söguþráðurinn sé kannski ekki að reyna neitt gífurlega frumlega hluti ætti hann að duga. Reyndar fæ ég alltaf pínu slæma tilfinningu þegar ráðinn er leikstjóri sem aldrei hefur gert neitt áður í svona risastóra mynd. En vonum að Rupert Sanders ráði við verkefnið.

Hvað segja lesendur? Náði stiklan að vinna ykkur yfir? Einhverjir ennþá pirraðir að Kristen Stewart eigi að vera fallegri en Charlize Theron? Man einhver eftir hinni Mjallhvítarmyndinni sem kemur út í apríl?