MacFarlane kynnir ekki næsta Óskar

Leikstjórinn og grínistinn Seth MacFarlane, kynnir síðustu Óskarsverðlaunahátíðar, staðfesti fyrr í dag að hann muni ekki snúa aftur sem kynnir á hátíðinni.

seth

Frammistaða MacFarlane á hátíðinni í ár var umdeild og þótti á tíðum klúr og óviðeigandi.

MacFarlane tilkynnti á Twitter síðu sinni að hann hefði einfaldlega ekki tíma til að taka verkefnið að sér næst.

„Þið gagnrýnendur þarna úti sem eruð í losti, þið getið andað léttar: Ég get ekki verið kynnir á Óskarsverðlaununum næst,“ skrifaði MacFarlane. „Ég reyndi að láta það ganga tímalega séð, en ég þarfnast svefns.“

Þetta er skiljanlegt þar sem MacFarlane verður á fullu í eftirvinnslu á nýju mynd sinni, gaman-vestranum A Million Ways to Die in the West, þar sem hann leikur aðalhlutverkið, ásamt því að leikstýra.

Þrátt fyrir fyrri fréttir um að honum hafi verið boðið starfið aftur, þá voru skyldur hans á öðrum vettvangi einfaldlega of margar, en hann er einnig aðalmaðurinn á bakvið Family Guy teiknimyndina á Fox sjónvarpsstöðinni.

„Ég mæli hinsvegar sterklega með starfinu, þar sem [Craig] Zadan og [Neil] Meron eru tveir þeir allra hæfileikaríkustu framleiðendur í bransanum,“ sagði MacFarlane um tvíeykið, sem framleiddi síðustu Óskarsverðlaunahátíð og mun snúa aftur á næstu hátíð, árið 2014.

Nú þurfa þeir félagar að finna nýjan kynni, en MacFarlane er sjálfur með uppástungu: „Ég sting upp á Joaquin Phoenix.