Lói fær 400 milljónir

Íslenska teiknimyndafyrirtækið GunHil hefur undirritað samninga við Belgíska fyrirtækið Cyborn vegna framleiðslu á teiknimyndinni LÓI – þú flýgur aldrei einn, sem verður einnig framleidd í stúdíói Cyborn í Antwerpen.

Í tilkynningu frá GunHil segir að samningurinn taki einnig til fjármögnunar á hluta af myndinni og nemur fjármögnun sem kemur frá Belgíu rúmum 400 milljónum króna. LÓI verður ein allra dýrasta íslenska kvikmyndin sem gerð hefur verið, en framleiðslukostnaður hennar er rúmur milljarður króna.

pllllododoLÓI – þú flýgur aldrei einn segir af lóu unga sem er ófleygur að hausti þegar farfuglarnir halda suður á bóginn. Hann verður að lifa af veturinn til að geta bjargað ástinni sinni frá því að lenda í klóm fálkans næsta vor.

Friðrik Erlingsson skrifar handrit myndarinnar og Árni Ólafur Ásgeirsson leikstýrir, ásamt Gunnari Karlssyni sem jafnframt er höfundur útlits og persóna. Hilmar Sigurðsson og Haukur Sigurjónsson eru framleiðendur myndarinnar.

Þýska fyrirtækið ARRI Worldsales fer með heimssölurétt á myndinni og hefur hún þegar verið seld til sýninga í kvikmyndahúsum til yfir 30 landa.

Cyborn, belgíska fyrirtækið sem nú kemur inn í framleiðsluna, er stofnað árið 1998 og hefur mikla reynslu í framleiðslu á tölvugerðu teiknimyndaefni, auk þess að vera mjög framarlega í stafrænni hreyfimyndavinnslu.

GunHil er stofnað árið 2012 af Gunnari Karlssyni og Hilmari Sigurðssyni, sem eru frumkvöðlar í tölvuteiknimyndagerð á Íslandi. Þeirra fyrri verk eru kvikmyndir eins og Litla lirfan ljóta, Anna og skapsveiflurnar og Hetjur Valhallar – Þór.

Ives Agemans, forstjóri Cyborn segir í tilkynningunni: “… það er okkur mikil ánægja að taka þátt í framleiðslu á þessu verkefni sem byggir á góðri sögu, frábæru handriti og töfrandi persónum og útliti. Það verður spennandi að koma á markað þessari fyrstu samframleiðslu milli Belgíu og Íslands.“

Lói – þú flýgur aldrei einn verður frumsýnd 2017. Sena fer með kvikmyndahúsadreifingu á Íslandi, og RÚV hefur tryggt sér sýningarrétt í sjónvarpi.

PLOEY_A4_Poster_May2015