Leno fer í bílskúrinn

Síðan spjallþáttastjórinn Jay Leno hætti að stjórna þættinum Tonight Show á NBC sjónvarpsstöðinni og Jimmy Fallon tók við, hefur lítið heyrst af því hvað hann hygðist taka sér fyrir hendur næst. En samkvæmt frétt New York Times þá virðist hann tilbúinn að byrja aftur að vinna í sjónvarpi, en nú með allt öðruvísi þátt.

jay leno

Blaðið segir að Leno sé um það bil að fara að skrifa undir samning um að stjórna sjónvarpsþætti á besta tíma á kapalsjónvarpsstöðinni CNBC um bíla, en Leno er vel þekktur bílaáhugamaður.

Engar frekari upplýsingar hafa verið gefnar um þáttinn en þó hafa yfirmenn stöðvarinnar staðfest að þátturinn verði ekki grínþáttur að upplagi.

Leno hefur síðustu misserin verið reglulega með þætti á NBC.com um bíla sem heita „Jay Leno´s Garage“ eða Í bílskúrnum hjá Jay Leno, í lauslegri íslenskri þýðingu.

Leno á gríðarlegt safn af bílum og mótorhjólum, sem hann geymir í gömlu flugvélaskýli á flugvellinum í Burbank, og eyðir þar mörgum klukkustundum á hverri helgi í að dytta að og gera upp ökutæki.

Leno hefur einnig komið reglulega fram sem uppistandari um allt land, og komið fram sem gestur hér og þar, eins og til dæmis í vefþætti Jerry Seinfeld “Comedians in Cars Getting Coffee,” . Þá var hann meðal kynna á Emmy verðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári.