Kvikmyndir.is býður á Bill & Ted

Félagarnir og tímaflakkararnir Bill Preston og Theodore Logan snúa aftur á hvíta tjaldið eftir tæpa þrjátíu ára fjarveru, aðdáendum sínum til mikillar ánægju.

Þeir Keanu Reeves og Alex Winter slógu rækilega í gegn með Bill and Ted’s Excellent Adventure sem kom út árið 1989 og snéru svo aftur með framhaldinu Bill and Ted’s Bogus Journey tveimur árum síðar við stórfínar undirtektir aðdáenda. Báðar myndirnar hafa öðlast sterkt fylgi á árunum liðnum og voru einnig gerðir tölvuleikir, sjónvarpsseríur og myndasögur um þá félaga.

Bill & Ted Face the Music segir frá því hvernig sluksarnir og rokkararnir tveir glíma við gráa fiðringinn. Þrátt fyrir þúsundir laga sem þeir hafa samið hefur lítið ræst úr rokkhljómsveit þeirra, Wyld Stallyns, frekar en þeim örlögum að semja lagið sem mun einn daginn bjarga öllum heiminum. En betra er seint en aldrei.

Þá leggja þeir af stað í nýtt ævintýri sem verður uppfullt af frægum sögupersónum og tónlistargoðum, nema að þessu sinni slást dætur þeirra í för með þeim.

Handrit nýju myndarinnar er í höndum þeirra Chris Matheson og Ed Solomon sem skrifuðu fyrstu myndina og sér leikstjórinn Dean Parisot um tauminn, en hann er þekktastur fyrir gamanmyndina Galaxy Quest.

Eins og gefið er upp að ofan ætlar Kvikmyndir.is að bjóða heppnum Wyld Stallyns-unnendum upp á boðsmiða á myndina, sem frumsýnd er um helgina. Miðarnir gilda á almennar sýningar í Smárabíói og Háskólabíói og til að eiga séns á slíkum gripum (og að sjálfsögðu eru tveir miðar á hvern vinningshafa) eru leikreglurnar ekki flóknari en þær að svara tveimur fisléttum spurningum.

Spurt er…

Hver leikstýrði fyrstu Bill & Ted myndinni?

og…

Hver leikur Dauðann í Bill & Ted myndunum?

Hægt er að senda svörin á netfangið tommi@kvikmyndir.is eða jafnvel í athugasemdakerfinu hér að neðan. Dregið verður út reglulega út næstu daga.

„Be excellent to each other!“ – Bill