Kvikmyndagagnrýni: Oblivion

Einkunn: 4/5

Það fór eflaust ekki framhjá neinum Íslendingi þegar kvikmyndin Oblivion var tekin upp hér á landi síðastliðið sumar. Um er að ræða alvöru Hollywood mynd sem áætlað er að hafi kostað um 120 milljónir dollara í framleiðslu. Með aðalhlutverk fer Tom Cruise en auk hans má finna Morgan Freeman og Olgu Kurylenko í öðrum hlutverkum. Með leikstjórn myndarinnar fer svo Joseph Kosinski en hann leikstýrði kvikmyndinni Tron: Legacy sem kom út árið 2010.

Oblivion gerist 60 árum eftir að innrásarher utan úr geimnum gerði árás á jörðina og tungl hennar sem varð til þess að nokkurskonar heimsendir átti sér stað. Aðeins fáir lifðu af hremmingarnar og einn af þeim var Jack Harper, leikinn af Tom Cruise. Jack þessi, fyrrum hermaður, er einn af fáum eftirlifendum og býr í hátæknilegri háloftastöð á jörðinni og sinnir viðgerðum og viðhaldi á svokölluðum drómum sem eru vélmenni sem svífa um á jörðu niðri og gæta þeirra auðlinda sem eftir eru. Dag einn hrapar svo einhvers konar geimskip til jarðar nálægt vinnusvæði Jacks og þegar hann rannsakar brakið finnur hann í því konu sem hefur komist af í lífhylki. Þessi fundur á heldur betur eftir að setja í gang æsispennandi atburðarás sem mun opna augu Jacks fyrir því að líf hans sjálfs er ekki eins einfalt og hann hélt að það væri.

Það fyrsta sem má segja um Oblivion er það að hún skorar 5/5 þegar kemur að sjónrænum útfærslum, myndatöku og sviðsmynd en þar spilar Ísland stórt hlutverk. Í raun má segja að fyrstu 20 – 30 mínúturnar af myndinni sé Ísland nánast í stærra hlutverki en sjálfur Tom Crusie. Hvert einasta skotið á fætur öðru sýnir landið á stórbrotin hátt í bland við ótrúlega vel útfærðar tæknibrellur. Þau tæki og tól sem sjást í myndinni, allt frá byssunni sem Jack ber yfir í loftfarið sem hann ferðast um í, eru útlitslega séð vel útpæld þó svo að undirritaður sé ekki dómbær á hvort þau séu raunhæf út frá vísindalegum skilningi. Þá ber einnig að nefna hljóðútsetninguna og notkun tónlistar í myndinni en þetta tvennt var alveg til fyrirmyndar og hjálpaði til við að setja heildar tóninn fyrir myndina.

Oblivion hefur einnig marga aðra jákvæða þætti. Þar ber helst að nefna frammistöðu Tom Cruise en hann komst vel frá hlutverki sínu. Þá er söguþráður Oblivion byggður þannig upp að áhorfandinn vill alltaf fá að vita meira og vita hvað gerist næst. Þannig skapast hæfilegur hraði á myndinni og hún drifin áfram af forvitni áhorfandans í bland við spennuþrungnar senur. Þá skilur myndin áhorfandann ekki eftir með ósvaraðar spurningar líkt og stundum vill verða þegar kemur að vísindaskáldskap.

Þrátt fyrir alla þessa jákvæðu þætti þá nær Oblivion samt sem áður ekki alveg skrefinu frá 4/5 upp í 5/5. Það eru fáeinir ástæður fyrir því en ein af þeim var Olga Kurylenko sem náði ekki að skila hlutverki sínu nægilega vel frá sér. Í öðru lagi voru nokkrir annmarkar á söguþræði myndarinnar, þó svo að hann gengi alveg upp á heildina litið, þurfti að líta framhjá nokkrum göllum í söguframvindunni. Stærsti gallinn var eflaust sá að sumir karakterarnir sem kynntir voru til sögunnar fengu litla athygli og það skorti svolítið á samtölin og persónusköpun þar. Það leiðir óhjákvæmilega af sér að áhorfandinn nær ekki að tengja við þessar persónur og hefur því litla samkennd með örlögum þeirra. Þá, eins og oft áður þegar um framtíðarmyndir er að ræða, þarf áhorfandinn að vera tilbúinn að kaupa þá framtíðarsýn sem kynnt er til sögunnar, með öllum þeim tæknilegu og hugmyndafræðilegu útfærslum sem myndin byggir út frá. Að lokum má segja að Oblivion skorti ákveðinn frumleika, þ.e.a.s. hún fer svolítið eftir bókinni og þeim formum sem áður hafa sést þegar kemur að vísindaskáldsögum.

Að öllu þessu sögðu er Oblivion klárlega mynd sem einfaldlega allir ættu að sjá í kvikmyndahúsi, þó ekki sé nema bara fyrir það að sjá okkar fallega land í hverjum stórkostlega rammanum á fætur öðrum. Þá hefur myndin gífurlega hátt skemmtanagildi og þrátt fyrir að vera rúmlega tvær klukkustundir að lengd heldur hún áhorfandanum við efnið frá byrjun til enda. Það er því óþarfi að fjalla meira um myndina, undirritaður hvetur einfaldlega alla til að gera sér ferði í kvikmyndahús, sjá Oblivion og fyllast stolti yfir okkar ástkæra landi.