Kjaftfor kokkur kennir Cooper kokkatrixin

Kjaftfori sjónvarpskokkurinn breski Gordon Ramsey hefur verið kallaður til Hollywood til að halda hraðnámskeið í eldamennsku fyrir leikarann Bradley Cooper, vegna hlutverks Cooper í Jon Favreau myndinni, Chef.

gordon ramsey

Breska dagblaðið The Sun segir að Gordon Ramsey hafi verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi fyrir myndina.

Heimildarmaður blaðsins segir að Gordon muni halda einka-hraðnámskeið fyrir Cooper, og muni kenna honum nokkur trix, eins og hvernig á að meðhöndla hnífa í eldhúsinu, svo að Cooper geti litið út eins og alvöru kokkur.

„Gordon stökk á þetta tækifæri. Hann á fullt af vinum í afþreyingariðnaðinum í Los Angeles, vegna vináttu sinnar við Beckham hjónin, þau David og Victoriu. Þannig að það var aðeins tímaspursmál hvenær hann myndi tengjast kvikmyndaiðnaðinum.“

Í blaðinu er sagt að Ramsey gæti jafnvel landað litlu hlutverki í myndinni, sem fjallar um uppgang matreiðslumanns sem eyðileggur feril sinn með eiturlyfjanotkun, áður en hann opnar síðan eðal veitingastað með Michelin stjörnu eða stjörnum.

„Hann er vanur að vera fyrir framan myndavélarnar, þannig að hver veit? Gestahlutverk í Chef væri frábær byrjun fyrir hann ef hann vill leika meira,“ sagði heimildarmaður blaðsins.

Þetta hugsanlega hlutverk í Chef yrði þó ekki fyrsta kvikmyndahlutverk Ramsey, sem er þekktur fyrir raunveruleikaþætti eins og The Hell’s Kitchen. Hann kom fram í myndinni Love’s Kitchen frá árinu 2011, breskri rómantískri gamanmynd, sem floppaði.

Sjáðu Ramsey í sýnishorni úr Love´s Kitchen hér fyrir neðan: