Kisulóra Í djörfum dansi

Söngkonan og fyrrum meðlimur kvennasveitarinnar Pussycat Dolls, Nicole Scherzinger, hefur verið ráðin í hlutverk Penny, í endurgerð ABC sjónvarpsstöðvarinnar á hinni rómuðu rómantísku gamanmynd, Í djörfum dansi, eða Dirty Dancing, eins og hún heitir á frummálinu.

nicole

Deadline kvikmyndavefurinn segir að hún muni þar með bætast í hóp með leikurum sem fyrir eru í myndinni, þeim Abigail Breslin, sem leikur Baby, og Coles Prattes sem leikur Johnny. Í upprunalegu myndinni fóru Jennifer Grey og Patrick Swayze með hlutverk Baby og Johnny.

Eins og aðdáendur upprunalegu myndarinnar vita þá er Penny, upphaflega leikin af Cynthia Rhodes,  fyrrum dansfélagi Johnny, en Baby kemur í hennar stað í dansinum, þegar Penny fer í fóstureyðingu, sem Baby hjálpar til við með því að útvega peninga fyrir aðgerðinni.

Debra Messing mun leika Majorie Houseman, móður Frances „Baby“ Houseman.

Hin þriggja tíma sjónvarpsmynd mun notast við sama tímabil og notað var í upprunalegu myndinni, sjöunda áratug síðustu aldar, þegar Baby, sem er í sumarfríi, hittir Johnny, sem vinnur sem danskennari á sumarleyfisstaðnum.

Scherzinger hefur leikið í sjónvarpsþáttum eins og How I Met Your Mother og Wizards of Waverly Place. Hún á einnig í viðræðum um að endurtaka hlutverk sitt sem Grizabelle í uppsetningu á söngleiknum Cats eftir Andrew Lloyd Webber, á Broadway, en Scherziner fékk tilnefningu til Olviver verðlauna fyrir leik sinn í söngleiknum á sínum tíma.