Kidman þegir

Nicole Kidman mun leika aðalhlutverkið í og framleiða kvikmyndagerð af geðtryllinum The Silent Wife, eða Þögla konan, í lauslegri þýðingu, sem gera á eftir metsölubók A.S.A. Harrison.

kidman firthBókin fjallar um auðug hjón í Chicago sem hafa verið saman í 20 ár og sambandið virðist vera traust. En vandamálið er að á meðan hennar aðal áhugamál er að hugsa um eiginmanninn og lifa skipulegu lífi, þá er hans áhugamál að halda framhjá henni.

Skipt er um vinkla frá kafla til kafla í bókinni, og sagan sögð frá mismunandi sjónarhornum, sem leiðir hægt og hægt til skelfilegs endis.

Bókin er fyrsta verk höfundar, sem lést nokkrum mánuðum áður en bókin sló í gegn.

Nýjustu myndir Kidman eru The Railway Man þar sem hún leikur á móti Colin Firth, en sú mynd var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada nú í september, og Grace Of Monaco, sem frumsýnd verður á næsta ári, 2014, en Kidman leikur aðalhlutverkið í þeirri mynd, hlutverk kvikmyndastjörnunnar og síðar furstaynjunnar Grace Kelly.

Nýlega var leikkonan einnig ráðin til að leika Gertrude Bell í mynd Werner Herzog Queen Of The Desert. Bell var frægur landkönnuður, rithöfundur, mannfræðingur og sendiráðsritari fyrir breska heimsveldið þegar mótun mið – austurlanda stóð sem hæst í byrjun 20. aldarinnar.