Kick-Ass 2: Höfnun Carrey milljarða virði

Höfundur Kick-Ass teiknimyndasagnanna, sem bíómyndirnar Kick-Ass 1 og 2 eru gerðar eftir, segir að einn af aðalleikurum Kick-Ass 2, Jim Carrey,  hafi gert framleiðendum myndarinnar „stærsta kynningargreiða allra tíma“ með því að lýsa því opinberlega yfir fyrr í sumar að hann myndi ekki taka þátt í kynningarherferð vegna myndarinnar.

jim carrey

Mark Millar segir að ákvörðun Jim Carrey hafi verið marg-milljóna dollara virði í kynningu fyrir myndina, en hann lýsti því yfir í júní sl. að hann myndi ekki taka þátt í kynningu á myndinni vegna ofbeldisins í henni.

Carrey, sem leikur hina sjálfskipuðu ofurhetju Colonel Stars and Stripes í myndinni, kom með þessa yfirlýsingu á Twitter samskiptasíðunni, og sagði að skotárásin í Sandy Hook skólanum í Connecticut hefði haft áhrif á ákvörðun sína.

Miller sagði í samtali við Sky News: „Á skrýtinn hátt, þá gerði Jim Carrey okkur mesta greiða allra tíma hvað varðar kynningu.“

„Universal áætlar að þessi yfirlýsing hans hafi verið að andvirði 30 milljón Bandaríkjadala ( 3,6 milljarðar króna ).

Millar tók þátt í góðgerðarsýningu á myndinni í Glasgow í Skotlandi, og lýsti þar myndinni sem „stærri og betri“ en fyrstu myndinni.

„Þetta er Empire Strikes Back fyrir okkar Star Wars,“ sagði Millar.

Sýningin í Glasgow safnaði peningum fyrir góðgerðarmál í Coatbridge, rétt fyrir utan Glasgow, þar sem Millar ólst upp.

Kick-Ass 2 verður frumsýnd á Íslandi 21. ágúst nk.

 

Stikk: