Karen Black látin

Bandaríska kvikmyndaleikkonan Karen Black er látin, 74 ára að aldri. Black var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni Five Easy Pieces og var einnig þekkt fyrir leik í myndum eins og Nashville og leik í síðustu mynd Alfred Hitchcock, Family Plot.

karen black

 

Banamein leikkonunnar var krabbamein í brisi. Eiginmaður Black tilkynnti andlát hennar á Facebook: „Það er með miklum trega að ég tilkynni hér að eiginkona mín og besti vinur, Karen Black, lést nú fyrir nokkrum mínútum síðan.“

Black hóf feril sinn sem leikari í leikhúsum Off-Broadway í New York. Hún lék í mynd Francis Ford Coppola You´re a Big Boy Now árið 1966, lék þónokkuð í sjónvarpi á sjöunda áratugnum þar til hún var ráðin í hina sígildu Easy Rider árið 1969. Í kjölfarið fylgdi hlutverk á móti Jack Nicholson, sem einnig lék í Easy Rider, í fyrrnefndri Five Easy Pieces. Meðfylgjandi mynd er af Nicholson og Black í hlutverkum sínum í myndinni.

 

Black lék síðan í Great Gatsby, og hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir frammistöðu sína þar. Hún lék síðan í myndum eins og Airport árið 1975,  The Day of the Locust, Nashville, Family Plot og Burnt Offerings. Hún hélt áfram að leika í kvikmyndum og í sjónvarpi allt sitt líf, jafnvel eftir að hún var greind með krabbamein.

Í mars sl. hóf hún netsöfnun á vefsíðunni GoFundMe til að reyna að safna 17 þúsund Bandaríkjadölum til að kosta tveggja mánaða meðferð við sjúkdómnum í Evrópu.  Hún safnaði meira en helmingi upphæðarinnar á einum degi og endaði með að safna 61 þúsund dölum.