James Franco verður raðmorðingi

Leikarinn James Franco, sem var tilnefndur til Golden Globe verðlauna fyrir leik sinn í 127 Hours, hefur staðfest að hann muni fara með aðalhlutverk í væntanlegri mynd um raðmorðingjann Richard Ramirez. Franco mun einnig leikstýra myndinni, en Ramirez vakti ótta hjá mörgum árið 1985 þegar hann hóf að brjótast inn á heimili ungra kvenna í Suður Kaliforníu og myrða þær á hrottalegan hátt.

Myndin mun sýna hvernig Ramirez varð að manninum sem framdi þessa hrottalegu glæpi en hann tekur nú út lífstíðardóma í fangelsi í Kaliforníu. Ramirez var dæmdur fyrir 13 morð, 5 tilraunir til morðs, 11 kynferðislegar árásir og 14 innbrot. Framleiðendur myndarinnar verða söngvarinn Chris Cornell og Nicolas Constantine, en sá síðarnefndi skrifaði einnig handritið.

– Bjarki Dagur