Jafnrétti að leiðarljósi í nýrri kvikmyndastefnu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að jafnréttismál hafi verið höfð að leiðarljósi við gerð nýrrar kvikmyndastefnu. Þetta kemur fram á vef RÚV og og segir Lilja þar að megi betur gera á þessu sviði.

Samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi gagnrýna að ekki sé nóg gert til að jafna hlut kynjanna í stefnunni.

„Í drögunum að nýjum styrkúthlutunarreglum er horft sérstaklega til jafnréttismála. Öll umgjörð og allt sem við gerðum varðandi stefnuna, þá vorum við að taka mið af þessum jafnréttissjónarmiðum, sem eru mjög mikilvæg,” segir Lilja.

„Ég segi sem kona að alltaf þegar þessi mál koma upp þá hlustar maður sérstaklega. Þess vegna vorum við með hópinn skipaðan þannig að ég taldi alveg víst að tekið væri tillit til þessara sjónarmiða.”

Lilja bætir við að konur hafi náð sérlega góðum árangri á Edduverðlaununum þetta árið, að þær gegni veigamiklum embættum tengdum kvikmyndagerð. „Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er kona, forstöðumaður Kvikmyndasafnsins er kona, forstöðumaður eins kvikmyndahúsa landsins er kona. Framkvæmdastjóri stærstu listrænu kvikmyndahátíðar landsins er kona og ráðherra kvikmyndamála er kona,” segir hún.