Jack Nicholson er hættur

Stórleikarinn Jack Nicholson er sestur í helgan stein, samkvæmt frétt vefmiðilsins RadarOnline.com.

Leikarinn, sem er 76 ára gamall, ætlar að hætta að leika í kvikmyndum, en ferill hans spannar fimm áratugi.

jack-nicholson-closeup-5155-620x348

„Jack hefur – án þess að hafa gert mikið veður út af því – hætt störfum,“ sagði innanbúðarmaður í Hollywood í samtali við vefmiðilinn.

„Ástæðan er einföld – hún er minnisleysi. Jack á erfitt með að muna þær línur sem hann á að fara með.“

Nicholson hefur unnið Óskarsverðlaunin þrisvar sinnum, en hefur ekki leikið í kvikmynd síðan árið 2010, þegar hann lék í myndinnii How Do You Know ásamt Reese Witherspoon, Paul Rudd og Owen Wilson.

Samkvæmt heimildum þá vildu framleiðendur myndarinnar Nebraska fá leikarann til að leika lykilhlutverk í myndinni, eldri mann, drykkfelldan, sem fer í ferðalag frá Montana til Nebraska ásamt syni sínum úr fyrra hjónabandi, til að reyna að hreppa milljón dollara markaðsverðlaun.

Bruce Dern tók að lokum hlutverkið að sér eftir að Nicholson sýndi því ekki áhuga.

Ferill Nicholson hófst á sjötta áratug síðustu aldar þegar hann vann sem aðstoðarmaður teiknimyndagoðsagnanna William Hanna og Joseph Barbera í teiknimyndamyndveri MGM. Hann hætti þar til að freista gæfunnar sem kvikmyndaleikari, en fyrsta hlutverk hans var í myndinni The Cry Baby Killer, árið 1958, þar sem hann lék titilhlutverkið.

Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í myndunum One Flew Over the Cuckoo’s Nest og As Good as It Gets, en hann fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í báðum þeim myndum. Hann vann einnig verðlaunin fyrir meðleik í Terms of Endearment frá 1983.

Nicholson hefur verið tilnefndur til 12 Óskarsverðlauna, sem er met. Átta sinnum sem besti leikari og fjórum sinnum sem meðleikari.

„Jack er ekki að drega sig út úr sviðsljósinu,“ segir heimildarmaður vefsíðunnar, „hann ætlar bara að draga sig í hlé frá leikarastörfum.“