Ítalía í fókus á RIFF

Sérstakur fókus verður á ítalska kvikmyndagerð á RIFF í ár. Ítalskur kvikmyndaiðnaður hefur verið í fremstu röð frá fyrstu tíð enda næstum jafngamall og kvikmyndaformið sjálf. Ný kynslóð kvikmyndagerðarmanna á Ítalíu eftir kreppuáranna sækir sér innblástur í samfélag brostinna drauma og nýrrar vonar.

riff-2014 - The Stone River - Still hi-res

Eftirtaldar ítalskar myndir verða sýndar:

The Stone River

Leikstjóri: Giovanni Donfrancesco

Myndin rekur örlög evrópskra námuverkamanna sem fóru í byrjun 20. aldar yfir Atlantshafið og settust að í bænum Barre í Vermont þar sem stærsta granítnáma heims var í bígerð. Innan fárra ára voru flestir fárveikir eða látnir úr kísillunga. Fyrir gerð myndarinnar lásu núverandi íbúar Barre upp viðtöl við forfeður sína frá 4. áratugnum um lífið og aðstæður í bænum. Með rödd þeirra, á flóknum mótum fortíðar og framtíðar, endurvekur myndin frásagnir af félagslegum raunum, sjúkdómum og dauða, harmleik og von. Á frumlegan máta segir myndin sögu harmleiks heils innflytjendasamfélags í viðjum eilífrar baráttu við stein.

 

CON IL FIATO SOSPESO/Holding My Breath

Leikstjóri: Costanza Quatriglio

Stella er að ljúka háskólanámi í lyfjafræði. Hún send að vinna í rannsóknarhópi að lokaverkefninu sínu. Smám saman sér hún að eitthvað einkennilegt er í gangi á rannsóknarstofunni. Vinnuaðstæður eru heilsuspillandi, starfsfólk veikist og prófessorarnir tala um tilviljanir. Anna, vinkona Stellu sem hætti í skólanum til að spila með pönkrokksveit, varar Stellu við því að eyða öllum dögum inni á rannsóknarstofunni. En Stella vill ekki gefa draum sinn upp á bátinn. Smátt og smátt fléttast saga hennar saman við sögu ungs doktorsnema sem hefur þegar fetað sömu slóð.

 

How Strange to Be Named Federico/Che Strano Chiamarsi Federico!

Leikstjóri: Ettore Scola

Þessi mynd er óður til og lýsing á hinum mikla ítalska leikstjóra Federico Fellini, sögð af leikstjóranum og handritshöfundinum Ettore Scola. Með því að horfa handan kvikmyndaleikstjórans Fellinis reynir Scola, sem var samtímamaður meistarans, að sýna persónulegri og minna þekktar hliðar skapgerðar hans. Hann býr að þeim forréttindum hafa þekkt Fellini og þær tilfinningar sem hann gat vakið í hverjum þeim sem hlýddi á hann, kaldhæðni hans og hugmyndir hans um „lífið sem gleðskap.“ Saga hans frá því að hann kom fyrst fram sem hönnuður árið 1939 og allt til fimmtu Óskarsverðlauna hans á 73. og síðasta aldursári hans er sett fram eins og sagan af Gosa — sem breytist þó aldrei í alvöru strák. Þetta er innsýn í líf eins mesta meistara kvikmyndasögunnar sögð gegnum brotakennd og stutt minningarbrot.

 

Sacro Gra 

Leikstjóri:  GIANFRANCO ROSI

Gianfranco Rosi segir sögu dulins staðar í eigin landi. Eftir tveggja ára ferðalag með myndavélina í sendiferðabíl á risavöxnum hringvegi Rómarborgar – Grande Raccordo Anulare, eða GRA – uppgötvar hann dulda heima og sögur sem dyljast í stöðugri ringulreiðinni: Vindlareykjandi nútímaprins sem gerir fimleikaæfingar á kastalaþakinu umkringdur akri nýbyggðra íbúðarhúsa; sjúkraflutningamaður á sjúkrabíl sem er ávalt á vakt við að sinna slysum sem verða á veginum; og álaveiðimaður sem býr í húsbát undir brúnni yfir ána Tíber. Fjarri hinum hefðbundnu táknum Rómarborgar er GRA heill sagnaheimur þeirra sem hafast við á jaðri hins sístækkandi heims höfuðborgarinnar.

 

Song and Naples/Song ‘E Napule

Leikstjóri: Manetti Bros.

Myndin gerist í Napólí nútímans. Eftir að hafa lokið háskólanámi í píanóleik á Paco erfitt með að finna starf við hæfi. Móðir hans ráðleggur honum að sækja um hjá lögreglunni, en hann flækist inn í rannsókn á flóknu sakamáli. Varðstjórinn, Cammarota, er á hælunum á hættulegum morðingja sem gengur undir nafninu Draugurinn því enginn hefur séð framan í hann. Varðstjórinn leitar að lögreglumanni sem getur þóst vera píanóleikari og laumað sér í brúðkaup Antonietta Stornaienco sem er dóttir valdamikils manns í þjóðfélaginu. Draugurinn mun að öllum líkindum mæta í brúðkaupið. Paco endar á því að hætta eigin lífi við að spila músík sem hann fyrirlítur klæddur eins og durgur. Á óvæntan hátt veldur það straumhvörfum í lífi hans.

 

Tir

Leikstjóri: ALBERTO FASULO

Branko er fyrrum kennari og núverandi bílstjóri. Á ferð sinni um landflutningaleiðir Evrópu fjarlægist hann sífellt allt og alla. Hann býr einangraður í bílnum dag og nótt í margar, langar vikur á meðan hann reynir að veita fjölskyldu sinni betra líf svo bíllinn verður hægt og rólega hluti af honum. Hann þénar þrefalt meira en kennaralaunin voru, en allt hefur sitt virði, jafnvel þótt það sé ekki mælt í peningum. Myndin átti upprunalega að verða heimildarmynd, en þróaðist út í leikna mynd. Leikstjórinn Alberto Fasulo neyddi aðalleikarann til að búa með sér og myndavélinn og aka um í vörubíl í þrjá mánuði til að segja þessa óvenjulegu sögu af lífi sem þrífst dulið fyrir allra augum á hraðbrautum Evrópu.

 

Long live the Freedom/Viva la Liberta

Leikstjóri: Roberto Andò

Ritari helsta stjórnarandstöðuflokksins, Enrico Oivieri, á í erfiðleikum. Skoðanakannanirnar fyrir yfirvofandi kosningar eru honum ekki í vil. Nótt eina, eftir enn ein mótmælin, hverfur Olivieri og skilur eftir stuttort bréf. Orðrómar og ásakanir fara á kreik í kerfinu og innan flokksins. Með því að leita til geðhvarfasjúks tvíburabróðurs Olivieri tekst þeim að „fá hann aftur“ í raðir flokksins. Hann byrjar að tala með öðrum hætti, ljóðrænt og skorinort, hann verður flottur og flippaður. Gengi flokksins fer að batna í skoðanakönnunum, almenningsálitið vex, og flokksfundagestir sýna honum áhuga á nýjan leik. En einhver fylgist í leyni með hverri hreyfingu hans og bíður átekta.