Bergur Ísleifsson ritstjóri Mynda mánaðarins dvelur nú í Kína. Hér fyrir neðan er pistill sem hann sendi kvikmyndir.is um dvöl sína í landinu, en við sögu kemur meðal annars stórundarlegt kínverskt kvikmyndaplakat með íslenskum texta og íslenskum kennileitum!
Lesið pistilinn hér að neðan:
Þeir sem þekkja mig vita að í október 2011 ákvað ég að fara til Kína. Mig hafði alltaf langað til að koma þangað og raunar alltaf langað til að koma til Asíu. Svo fór að ferðin varð örlítið lengri en áætlað var. Ég er ekki enn komin heim og er nú sem sagt búinn að vera í Kína í rúmt ár. Ég er reyndar nokkuð ákveðinn í að vera í a.m.k. eitt ár í viðbót, hugsanlega lengur, enda kann ég vel við mig hér.
Ég leigi nú íbúð í borg sem heitir Guilin og er norðarlega í svokölluðu Guangxi-héraði í Suður-Kína. Þegar ég kom hingað fyrst kom þessi borg mér mjög á óvart fyrir það hversu nútímaleg hún var, flott og „vestræn“. Fljótlega komst ég svo að því að hér var fullt af fínu leiguhúsnæði og svo fór að ég ákvað að leigja mér litla íbúð í góðu hverfi, svo að segja í miðbænum. Hér fyrir neðan er kort svo þeir sem þetta lesa geti betur áttað sig á hvar ég er staddur.
—
Í Guilin búa eitthvað um milljón manns. Þessi tala er að vísu nokkuð á reiki og fer eftir því hve stór sá radíus er sem miðað er við því Guilin er líka allt svæðið í kringum sjálfa borgina. Hef heyrt talað um að hér búi allt frá 700 þúsund manns upp í tæpar 5 milljónir, allt eftir viðmiði. Borgin sjálf er hins vegar tiltölulega lítil á kínverskan mælikvarða.
Hér í Guilin eru að því er mér skilst fjögur kvikmyndahús. Ég hef séð þrjú þeirra að utan. Í þeim eru auðvitað kínverskar myndir mest áberandi en á því ári sem ég hef verið hér hafa kvikmyndahúsin einnig sýnt flesta bandarísku „blockbusterana“. Oftast eru bandarísku myndirnar talsettar á kínversku en stundum eru þær líka sýndar með enska talinu og þá með kínverskum texta. Frá því að ég kom hingað hef ég ætlað mér að skella mér í kínverskt bíó, en alltaf frestað því, aðallega vegna þess að allar upplýsingar eru á kínversku og ég hef ekki viljað taka sénsinn á að lenda á mynd með kínversku tali.
Föstudaginn 23. nóvember síðastliðinn var ég á röltinu ásamt kínverkum manni sem talar dálitla ensku. Við áttum leið framhjá einu kvikmyndahúsanna sem er reyndar rétt hjá þar sem ég bý. Þar rak ég augun í að þeir voru byrjaðir að sýna Life of Pi. Í ljós kom að í þessu kvikmyndahúsi var hún sýnd með ensku tali og í þrívídd.
Um leið tók ég eftir að það var verið að sýna 3 aðrar myndir í húsinu, tvær kínverskar og svo myndina 2012 sem var í endursýningu. Skyndilega varð mér starsýnt á plakat 2012-myndarinnar … en ég læt myndirnar hér fyrir neðan og myndatexta segja rest …
Sem sagt, þarna var verið að sýna fjórar myndir, Life of Pi, tvær kínverskar og svo 2012. Ég ákvað að skella mér á Life of Pi en eitthvað við 2012-plakatið hringdi hjá mér bjöllu.
Þið sjáið núna út af hverju: Á plakatinu var mynd af Hallgrímskirkjuturni og Perlunni að sökkva í sæ! Þess utan var „tag“-línan, Við fengum viðvörun, á íslensku.
Þetta fannst mér skrítið. Ég meina … af öllum byggingum og tungumálum heimsins, hvernig skyldi standa á því að íslenskar byggingar og ástkæra, ylhýra þar auki væri notað á plakati utan á kínversku kvikmyndahúsi í miðri Kína? Ég ákvað að hafa samband við Senu, spyrja um þetta og sýna þeim myndirnar, en Sena er með umboðið á Íslandi.
Þeir hjá Senu komu af fjöllum. Þeir vissu ekki til að íslensk kennileiti hefðu verið notuð á svona plakat og þetta var hvorki gert hjá þeim né notað á Íslandi á sínum tíma. Þeir vissu eiginilega jafn lítið um þetta og ég. Mjög sérstakt vægast sagt … fyrir mig alla vega að rekast á þetta hér. Kannski veit einhver sem þetta les hvernig á þessu stendur?
En … hvað um það … ég ákvað semsagt að skella mér á Life of Pi í þrívídd og keypti mér miða. Hann kostaði 60 kínversk júan eða rétt rúmlega 1,200 krónur miðað við gengið þegar þetta er skrifað. Myndin var síðan á dagskrá um kvöldið klukkan hálfátta og um bíóferðina sjálfa mun ég fjalla í seinni hluta þessarar greinar, sem birtist hér á morgun.
Bergur Ísleifsson
http://bergurisleifsson.com