Howard leikstýrir mynd um björgun taílensku fótboltastrákanna

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Ron Howard hefur verið ráðinn til að leikstýra spennutrylli um fótboltastrákana sem festust í Tham Luang hellunum í Taílandi sumarið 2018 – og þær mögnuðu björgunaraðgerðir sem í kjölfarið fylgdu.

Kvikmynd Howards ber heitið Thirteen Lives og er handritið skrifað af hinum Óskarstilnefnda William Nicholson, sem skrifaði meðal annars myndirnar Gladiator, Everest og First Knight.

How­ard hóf fer­il sinn sem leik­ari, en hann lék í fjölda kvik­mynda og sjón­varpsþátta þegar hann var barn að aldri. Seinna meir sölsaði hann um og færði sig á bak við mynda­vél­arn­ar. Í dag er hann þekkt­ast­ur sem leik­stjóri, en hann leik­stýrði sinni fyrstu mynd í fullri lengd Grand Theft Auto árið 1977. Eft­ir hann ligg­ur fjöldi þekktra verka, svo sem Óskar­sverðlauna­mynd­irn­ar Apollo 13 og A Beautif­ul Mind. Hefur hann einnig leikstýrt myndum á borð við How the Grinch Stole Christ­mas, Frost/Nixon, The Dilemma, EdTV og Rush. Skemmst er frá því að segja að Howard er ágætlega sjóaður í sannsögulegum kvikmyndum.

Seinasta kvikmynd Howards var Star Wars-einleikurinn Solo. Howard tók við leikstjórnartaumunum í Han Solo myndinni af þeim Phil Lord og Chris Miller, en þeir voru látnir taka pokann sinn eftir að þeim lenti saman við Lucasfilm yfir nokkrum hlutum eins og leikspuna og leikstjórnarstíl. Á endanum gerði Solo sáralítið í miðasölum og lenti Lucasfilm í gífurlegu tapi vegna myndarinnar.

Slegist um kvikmyndaréttinn

Strax í kjölfar aðgerðanna í Taílandi fór hvert kvikmyndafyrirtækið á eftir öðru að slást um söguna og voru sex útgáfur á forvinnslustigi frá og með haustinu 2018. Í fyrrahaust var gefin út taílenska kvikmyndin The Cave, sem frumsýnd var á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan síðastliðinn október við prýðilegar viðtökur.

Einnig er heimildarmynd í vinnslu frá National Geographic og vill kvikmyndagerðarmaðurinn Jon M. Chu (Crazy Rich Asians, G.I. Joe 2) þróa sjónvarpsseríu fyrir Netflix.

Á samskiptamiðlum lýstu margir áhyggjum sínum yfir því hvort Hollywood-framleiðendur taki sér skáldaleyfi með söguna eða breyti kynþætti drengjanna og þjálfara þeirra í aðlöguninni. Chu var á meðal þeirra sem krafðist þess að framleiðendur segðu söguna rétt til að koma í veg fyrir svokallaða „hvítþvætti“ bransans vestanhafs.

„Ég neita að leyfa Hollywood að hvítþvo þessa sögu. Ekki séns. Aldrei á okkar vakt. Það mun ekki gerast, því annars er okkur að mæta. Það er falleg saga þarna um mannfólk að bjarga öðru mannfólki. Ef einhver ætlar að segja þessa sögu [í kvikmyndaformi] er eins gott að það sé gert rétt og af virðingu,“ sagði Chu á Twitter á sínum tíma.

Stikk: