Hnefaleikahetja sekkur á botninn – Frumsýning á Southpaw

Hnefaleikamyndin Southpaw verður frumsýnd á miðvikudaginn næsta, 12. ágúst. Myndin er með Jake Gyllenhaal í aðahlutverkinu og er eftir leikstjóra Training Day og The Equalizer; Antoine Fuqua

Southpaw verður sýnd í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Southpaw segir sögu hnefaleikahetjunnar Billys (Jake Gyllenhaal) „The Great“ Hope“, sem virðist við fyrstu sýn hafa allt sem mann gæti nokkurn tíma dreymt um; tilkomumikinn feril, fallega og ástríka eiginkonu (Rachel McAdams), yndislega dóttur (Oona Laurence) auk þess að lifa í vellystingum.

sothupaw

En þá knýja örlögin dyra og harmleikurinn hefst þegar hann missir konuna sína. Hope sekkur alla leið á botninn. Þá hittir hann þjálfarann Tick Williams (Forest Whitaker) sem vinnur á líkamsræktarstöð í hverfinu.

Með seglu og þrjósku reynir Hope, undir leiðsögn Ticks, að vinna líf sitt aftur og ekki síst traust þeirra sem hann missti.

Fróðleiksmolar til gamans: 

– Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan kom Jake sér í hörkuform fyrir gerð Southpaw eftir að hafa leikið hinn þvengmjóa Lou Bloom í myndinni Nightcrawler sem frumsýnd var á síðasta ári. Hermt er að þetta hafi hann gert á aðeins sex mánuðum undir stjórn atvinnuboxarans fyrrverandi Terrys Claybon í æfingastöð Floyds Mayweather í Atlanta með þriggja tíma stífum æfingum á dag í tvo mánuði og síðan sex tímum á dag í fjóra mánuði.

– Persóna Jakes Gyllenhaal í myndinni, hnefaleikamaðurinn Billy Hope, var upphaflega skrifuð með Eminem í huga eftir að hann lék aðalhlutverkið í 8 Mile árið 2002. Eminem samþykkti á sínum tíma að taka hlutverkið að sér, en hætti síðan við vegna þess að hann vildi einbeita sér meira að tónlistarferlinum. Hann semur samt og flytur eitt lag í myndinni.

– Þematónlistin í Southpaw var samin af James Horner (Titanic, The Amazing Spider-Man, Avatar), en hann lést sem kunnugt er í flugslysi mánudaginn 22. júní sl. og er Southpaw næstsíðasta myndin sem hann samdi tónlist við. Sú síðasta heitir The 33 og verður frumsýnd í haust.

– Handritið að Southpaw er eftir Kurt Sutter sem er einna þekktastur fyrir að hafa skrifað handrit sjónvarpsþáttanna The Shield og Sons of Anarchy.

– Þess má svo geta að heiti myndarinnar, Southpaw, er bandarískt slangur sem stundum er notað um örvhenta, en oft um örvhenta íþróttamenn.

poster