Í stuttu máli er „It“ mjög vel heppnuð hryllingsmynd, vel leikin og hörkuspennandi.
Óvættur herjar á ungmenni í smábænum Derry og einn af öðrum hverfa þau sporlaust. Sjö krakkar taka höndum saman og snúa vörn í sókn og hyggjast deyða þennan forna fjanda í eitt skipti fyrir öll.
„It“ er byggð á þykkum doðranti (yfir 1.100 bls.) eftir hryllingsmeistarann Stephen King og tekur fyrir fyrri hlutann sem greinir frá baráttu ungmennanna við trúðinn Pennywise sem er ábyrgur fyrir hvarfi margra þeirra langt aftur í tímann. Ferlíkið birtist þeim í gervi trúðsins en getur brugðið sér í hvaða form sem er og virðist vera ævafornt enda er saga smábæjarins stútfull af ógnvænlegum atburðum og dularfullum mannshvörfum.
Bókin var kvikmynduð árið 1990 sem sjónvarpsmynd í tveimur hlutum (tvær 90 mínútna myndir) og var fyrri hlutinn um ungmennin á meðan sá seinni greindi frá baráttu þeirra við óvættinn á fullorðinsárum. „It“ (1990) þótti vel heppnuð en skiljanlega var dregið úr ofbeldi og blóðsúthellingum og þótti mörgum unnendum skáldsögunnar full miklu sleppt úr. „It“ (2017) greinir eingöngu frá fyrri hlutanum og því er miklum tíma eytt í sögu ungmennana og hvernig Pennywise nýtir sér ótta þeirra og nærist á honum uns hann lætur til skarar skríða.
„It“ er mjög vel heppnuð hryllingsmynd í alla staði og lokaafraksturinn nýtur góðs af því hve miklum tíma er eytt í hverja af þeim sjö aðalpersónum sem heyja stríð við „Það“. Óhugnaðurinn kemur ekki aðeins frá Pennywise þar sem persónulegir djöflar, óöryggi og hræðsla hjá krökkunum eru fræ sem hafa lengi fengið að dafna og gera þá að skotmörkum óvættsins. Bærinn Derry er einnig stór karakter þar sem fullorðna fólkið þekkir dimmu forsöguna en kýs að horfast ekki í augu við hana (reyndar er þetta hluti úr bókinni sem hefði verið hægt að fara betur út í) og rammar vel baráttu krakkanna við að berjast við að lifa af og komast til aldurs. Svo eru það vondu unglingarnir sem leggja krakkana í einelti og eru einstaklega viðurstyggilegir en þeir eru enn ein hindrunin sem þarf að yfirstíga. Í mörgum myndum eru svona persónur einsleitar og fyrirsjáanlegar (og það á að mestu við hér líka) en heiðarleg tilraun er gerð til að sýna fram á aukna vídd og eru þeir enn eitt dæmið um það slæma sem kraumar undir yfirborðinu í hinum yfirborðsfallega bæ Derry.
„It“ er mjög vel leikin af öllum ungu leikurunum og ber helst að nefna Jaeden Lieberher og Sophia Lillis en þau fá kröfuhörðustu hlutverkin og án efa mun meira heyrast frá þeim í framtíðinni. Eins er Finn Wolfhard (sem lék stórt hlutverk í seríunni „Stranger Things“) stórskemmtilegur sem einstaklega orðljótur en hnyttinn grínisti hópsins. Svo er ekki hægt annað en að minnast á Bill Skarsgård í hlutverki Pennywise en hann stendur sig með prýði og er mjög ógnvekjandi en þar sem undirskrifaður ólst upp við upprunanlegu myndina náði hann ekki að toppa Tim Curry sem er enn óumdeildur kóngur illu trúðanna.
Flæðið á myndinni er gott, stígandinn sömuleiðis og mörg bregðuatriðin heppnast fantavel. Leikstjórinn Andy Muschietti („Mama“ 2013) er greinilega þess virði að fylgjast með og vel er haldið utan um allar persónur og sögur þeirra og þrátt fyrir talsverða lengd (rúmlega tveir tímar) er myndin ekki langdregin. Handritið er nokkuð þétt og höfundar taka sér það bessaleyfi að víkja frá skrifaða orði King með því að láta atburðarrásina eiga sér stað á níunda áratugnum í stað þess sjötta og finna upp að ýmsum gervum sem Pennywise birtist í sem mun koma unnendum bókarinnar á óvart.
Það kemur þó ekki í veg fyrir að augum var þó nokkuð oft ranghvolft sökum miður gáfulegra ákvarðanataka persónanna þar sem þær komu sér hvað eftir annað í stórhættu þrátt fyrir fulla vitneskju um yfirstandandi hættu. En svona atriði eru ekki gallar í myndum sem þessari þar sem fullkomin rökhyggja er ekki eins spennandi að fylgjast með.
Það er óhætt að mæla með þessari.