Hera með Portman á rauða dreglinum

Hera Hilmarsdóttir er ein 10 evrópskra leikara sem var valin í Shooting Star á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem er sérstök kynning á ungum og efnilegum kvikmyndaleikurum sem þykja líklegir til að ná langt í sínu fagi.

Hvert ár er hópurinn kynntur með pompi og prakt á hátíðinni. Meðlimir EFP samtakanna innihalda 36 kvikmynda- og kynningarmiðstöðvar frá 35 löndum og er Kvikmyndamiðstöð Íslands aðili að samtökunum.

Að þessu sinni kynnti hin heimsfræga og verðlaunaða leikkona Natalie Portman hópinn á sérstakri kynningarathöfn og færði þeim verðlaun. Hópurinn var svo myndaður bak og fyrir á rauða dreglinum ásamt Portman og helstu aðstandendum hátíðarinnar.

'As We Were Dreaming' Premiere - 65th Berlinale International Film Festival

Dómnefnd sagði um valið á Heru: „Valið á Heru var auðvelt þar sem hún hefur sýnt fram á að hún er jafn hæfileikarík og fær um að túlka tilfinningar á bæði ensku og íslensku, þar sem hún leikur t.a.m. sögulegar persónur og nútímapersónur með jafn áreynslulausum hætti. Þrátt fyrir tímalausa englaásjónu sína kemur fjölhæfni hennar á óvart – það bærist sannarlega eldmóður innra með henni.“