Hannibal Lecter er mættur aftur – Ný stikla

Eins og við höfum sagt frá hér á síðunni þá eru væntanlegir nýir sjónvarpsþættir á NBC sjónvarpsstöðinni bandarísku um mannætuna Hannibal Lecter, sem Anthony Hopkins gerði ódauðlega í Silence of the Lambs, og fleiri myndum.

Nú er komin stikla fyrir þáttinn og hún veldur ekki vonbrigðum.

Sjáið stikluna hér að neðan:


Stiklan er ekki löng, en kynnir til sögunnar helstu söguhetjur. Fyrst eru það lögreglufulltrúarnir Will Graham sem Hugh Dancy leikur og Jack Crawford í túlkun Lawrence Fishburne, að skoða vettvang hrottalegs morðs, áður en við sjáum svo glitta í Hannibal sjálfan, leikinn af danska leikaranum Mads Mikkelsen.

Hér að neðan er líka nýtt plakat sem NBC hefur gefið út, þar sem Hannibal hefur væntanlega nýlokið við að snæða eitt af fórnarlömbum sínum.

Hannibal verður frumsýndur þann 4. apríl nk. á NBC sjónvarpsstöðinni og vonandi þurfa íslenskir sjónvarpsáhorfendur ekki að bíða lengi eftir að sjá þættina.

Þættirnir eru byggðir á skáldsögu eftir Thomas Harris og Bryan Fuller lagar hana að sjónvarpinu. Helstu leikarar eru Hugh Dancy, Mads Mikkelsen, Laurence Fishburne, Catherine Dhavernas, Gina Torres og Anna Chlumsky.