X-Files leikkona læknar Hannibal Lecter

Við sögðum frá því fyrr í haust að danski leikarinn Mads Mikkelsen myndi bregða sér í föt geðsjúka fjöldamorðingjans og mannætunnar Hannibals Lecter, í nýjum sjónvarpsþáttum sem verið er að undirbúa hjá NBC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum.

Nú hefur gömul sjónvarpsstjarna, sjálf Gillian Anderson úr X-Files sjónvarpsþáttunum, bæst í leikarahópinn. X – Files, fyrir þá sem ekki muna, fjallaði um rannsóknir á yfirskilvitlegum atburðum. Anderson lék aðalhlutverk á móti David Duchovny, sem nú leikur í Californication sjónvarpsþáttunum.

Anderson kemur til með að leika Dr. Bedelia Du Maurier, sem er geðlæknir sjálfs Hannibals Lecters.

Bryan Fuller framleiðandi og handritshöfundur Hannibal er spenntur yfir því að fá Anderson í þættina: „Allir geðlæknar þurfa að láta skoða eigið höfuð, og við erum himinlifandi að Gillian Anderson hafi valið Hannibal fyrir endurkomu sína í bandarískt sjónvarp eftir 10 ára hlé, og leika þar einkageðlækni Dr. Lecters,“ sagði Fuller í tilkynningu til fjölmiðla.

Síðan X-Files runnu sitt skeið árið 2002, hefur Anderson leikið í litlum sjónvarpsseríum eins og  Moby Dick og í breskum sjónvarpsþáttum eins og The Fall.

Samkvæmt upplýsingum á imdb.com vefsíðunni þá kom til greina á sínum tíma að Anderson tæki að sér hlutverk alríkislögreglumannsins Clarice Starling í kvikmyndinni Hannibal árið 2001, eftir að Jodie Foster hætti við að leika í myndinni, sem var framhald Silence of the Lambs, en samningur Anderson við framleiðendur X-Files þáttanna eru sagðir hafa komið í veg fyrir að hún gæti tekið hlutverk annars FBI alríkislögreglumanns að sér.

Auk Mikkelsen og Anderson eru í leikarahópi Hannibal ýmsir þekktir leikarar, þar á meðal Laurence Fishburne, Eddie Izzard, Gina Torres, Molly Shannon, Ellen Greene og Chelan Simmons.

Ekki er kominn frumsýningardagur á þættina, en talið er líklegt að þeir verði frumsýndir með vorinu.