Good Kill frumsýnd á föstudaginn

Frá leikstjóra Lord of War og framleiðendum The Hurt Locker kemur nýjasta mynd Ethan Hawke og January Jones, Good Kill. Með önnur hlutverk fara Bruce Greenwood, Zoë Kravitz, Jake Abel og Peter Coyote. Andrew Niccol leikstýrir.

goodkill

Myndin, sem er að hluta til byggð á sönnum atburðum, fjallar um herflugmanninn Thomas Egan sem hefur þann starfa með höndum að ráðast gegn óvinum Bandaríkjanna með drónum sem hann flýgur úr öruggu herstöðvarskjóli, fjarri átakasvæðinu sjálfu. Með drónunum getur hann læðst upp að óvininum og vistarverum hans og sprengt þær í tætlur. Dag einn verða Thomasi hins vegar á mistök sem eiga eftir að hafa alvarlegar afleiðingar og gjörbreyta viðhorfum hans til starfsins.

Þetta er í þriðja sinn sem þeir Ethan Hawke og leikstjórinn Andrew Niccol vinna saman að mynd en Ethan lék aðalhlutverkið í mynd hans Gattaca árið 1997 og aukahlutverk í myndinni Lord of War 2005. Af öðrum myndum sem Andrew Niccol hefur gert má nefna In Time og S1m0ne auk þess sem hann skrifaði handritið að The Truman Show og hlaut fyrir það BAFTA verðlaunin og tilnefningar til bæði Óskars- og Golden Globe-verðlauna.

Good Kill verður frumsýnd þann 22. maí og sýnd í Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri.