Fyrstu myndirnar úr Cloud Atlas mættar

Árið 2004 gaf breski rithöfundurinn David Mitchell út vísindaskáldsöguna Cloud Atlas og fimm árum síðar keyptu Wachowski systkinin kvikmyndaréttinn. Síðan þá hafa þau, í samstarfi við kvikmyndagerðamanninn Tom Tykwer (Run Lola Run, Perfume), unnið að þessari metnaðarfullu mynd, en saga bókarinnar spannar yfir tvo áratugi og sex sögur. Þríeikið skiptir á milli sín bæði handritsskrifunum, leikstjórastólnum og jafnvel tökuliðum, en tökur hófust á myndinni í september síðastliðnum í Þýskalandi. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Cloud Atlas fjármögnuð af þýsku fyrirtæki og er bæði „fyrsta tilraunin til að gera þýska ‘blockbuster'“ og dýrasta kvikmynd Þýskalands sögunnar.

Nú þegar er aragrúi af leikurum og leikkonum staðfest í myndina, þar á meðal: Tom Hanks, Halle Berry, Susan Sarandon, Ben Whishaw, Hugo Weaving, Jim Broadbent og Hugh Grant. Suður-kóreska leikkonan Bae Doona, sem hefur leikið í t.d. myndunum Sympathy for Mr. Vengeance og The Host, bættist einnig við hópinn, en fyrsta myndin af henni sem klóninn Sonmi-451 birtist í vikunni. Ásamt henni fengum við að sjá hvernig Seoul ársins 2144 mun (vonandi) koma til með að líta út í myndinni.

Persónulega er ég mjög áhugasamur um myndina, enda ansi forvitnilegur gripur á ferðinni, en á sama tíma getur hugmyndin reynst aðeins of góð á blaði til að virka sem kvikmynd. Við munum komast að því í október síðar á þessu ári þar sem myndin á setta útgáfu.