Fyrsta stikla úr Róbert Douglas myndinni This is Sanlitun

Fyrsta stiklan er komin fyrir nýjustu mynd leikstjórans Róberts Douglas, This is Sanlitun, en eins og við sögðum frá hér á síðunni á dögunum þá er myndin önnur tveggja nýrra íslenskra bíómynda til að vera valdar til þátttöku á TIFF, Toronto International Film Festival, sem hefst 5. september nk.  Báðar myndirnar verða frumsýndar á hátíðinni.

Future Is Good

Eins og segir í tilkynningu þá er Toronto ein af stærstu alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum og helsti vettvangurinn vestanhafs þar sem evrópskar kvikmyndir fá athygli og möguleika á dreifingu.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Róbert er leikstjóri myndanna Íslenski draumurinn, Maður eins og ég og Strákarnir okkar en þessi nýjasta mynd er tekin upp í Kína þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin ár.

Great Wall Scene 3

Myndin fjallar um Gary, sem er nýlentur í Peking með stóra viðskiptadrauma. Honum lánast ekki að fá kínverska fjárfesta til liðs við sig og bregður fyrir sig enskukennslu til að ná endum saman auk þess sem hann fær ítarlega ráðgjöf varðandi líf sitt og framtíð frá Frank – sem er hans sérlegur en afar mistækur andlegur leiðtogi. Það kemur á daginn að fyrrum kona Garys og sonur eru búsett í Peking og er það hin raunverulega ástæða fyrir því að hann kom. Spurningin er hvort Gary takist að bjarga hjónabandinu og hefja nýtt líf eða hvort hann fer heim með skottið milli lappanna eins og Frank spáði allan tímann.

Back With Frank

Myndin er framleidd af íslensku fyrirtækjunum Film Douglas og Vintage Pictures auk Ai Wan Entertainment í Kína. Framleiðendur eru Maureen Sherrard, Róbert Douglas og Hlín Jóhannesdóttir.