Framleiðandi American Pie í ruglinu á Facebook

Chris Moore, einn af framleiðendum nýjustu American Pie myndarinnar, gekk berserksgang á Facebook í gær í tilraun til þess að kynna myndina fyrir áhorfendum. Nýjasta American Pie myndin ber nafnið American Reunion og kemur í kvikmyndahús á Íslandi þann 6.apríl næstkomandi.

Markaðsátök fyrir myndina eru að ná nýjum hæðum um þessar mundir vestanhafs og markmið framleiðenda er vafalaust að hámarka hagnað myndarinnar. Moore hóf leikinn á því að setja inn spurningu til aðdáenda myndarinnar varðandi það hvað hann þyrfti að gera til þess að fá þau til að horfa á myndina í bíó. Þetta eitt og sér telst afar óvenjulegt, en Moore hélt áfram út kvöldið. Hann talaði m.a. um það hversu mikið hann vonaði að myndin myndi græða yfir 50 milljónir dollara í kvikmyndahúsum og að hann vonaði að hún kæmi út í plús. Hann lenti í rifrildum við aðdáendur í færslum sem hefur nú verið eytt af síðunni. Margir hafa talið að Moore hafi einfaldlega dottið á Facebook fyllerí í gær og vaknað með ansi mikla timburmenn í morgun.

Moore hefur nú sett inn afsökunarbeiðni á Facebook síðu American Reunion en áhugasamir geta kíkt þangað og séð hluta af samræðunum. Myndin hér fyrir neðan sýnir einnig hluta af færslum Moore.

Persónulega finnst mér þetta afar dapurt. Að horfa upp á miðaldra framleiðanda myndarinnar reyna í örvæntingu að ná sambandi við nýja kynslóð á veraldarvefnum til þess eins að græða meiri pening. Hvernig væri að búa bara til almennilega American Pie mynd og sjá áhorfendur flykkjast í bíó ?