Endurlit: The Last Temptation of Christ

Pælið í því að Willem Dafoe hefur leikið illmenni svo oft (og skemmtilega) að margir gleyma að einu sinni lék hann ekki bara góða gæjann, heldur AÐAL góða gæjann, Jesús. Það sem kom mér mest á óvart við The Last Temptation of Christ var ekki leikur Dafoe, eða brillerandi leikstjórn Martin Scorsese, heldur var það stórgóði strúktúr myndarinnar og gloppulaus ganghraði hennar. Það var hvergi dauður punktur út alla lengdina, atriðin voru alveg fullkomlega löng, og sagan hélt áhuga mínum linnulaust út 164-mínútna sýningartíma myndarinnar.

Sagan er alls ekki ný (döh), en átökin sem koma fram í myndinni hafa vart verið skoðuð ítarlega utan myndarinnar og bókarinnar sem hún byggist á. Titill myndarinnar vísar í sirka síðasta þriðjung myndarinnar (þó Jesús þarf að forðast fleiri freistingar þar til þangað er komið) sem er hreint út sagt magnaður í gegn og sjokkerar alveg jafn mikið þó maður viti hvað er í vændum. Lokakafli myndarinnar bætir miklum karakter í þessa útgáfu af Jesús og tilfinningalegt vægi myndarinnar stigmagnast svakalega þannig lokin virka alveg svakalega fullnægjandi.

Jesús er hér stúderaður sem manneskja frekar en heilög fígúra og maður finnur fyrir togstreitunni hans frá byrjun til enda og myndin stigmagnast fullkomlega í takt við persónuörkina hans. Júdas er einnig sýndur í öðruvísi ljósi sem umbreytir vanalega viðhorfi okkar til hans í sígildu atburðarrásinni. Báðir hafa heilmikla mótíf og auðvelt er að tengja sig við þá vegna þess að þeir virka bæði svo mennskir, hugsanlega mennskari en við höfum nokkurn tíman séð þá á hvíta tjaldinu.

Willem Dafoe svínvirkar í hlutverki Jesú Krists. Hann hefur bæði þennan vinalega sjarma og sympatíska sakleysið sem einkenna persónuna og hann rokkar flestar aðrar áskoranir sem fylgja þessari útgáfu af Frelsaranum. Hann heldur uppi myndinni alveg fantavel og hefur einnig herskara af frábærum leikarahóp til liðs við sig. Harvey Keitel fer með hlutverk Júdasar eins og það sé sparijakkinn sem hann hefur verið að safna fyrir allt sitt líf, hann tekur engar áhættur en sportar það svo vel að það skiptir ekki máli.

Þetta er einfaldlega áhugaverðasta útgáfan af sögunni um Jesú Krist sem ég man eftir og heppnast svo fullkomlega að hún er algjört skylduáhorf! Hún einblínir ekki á krossfestuna eða angistina sem fylgir lífi Jesú, heldur fylgir hún þolrauninni að vera Kristur sjálfur og hvernig hann tekst á við lífið sem honum var ætlað án þess að láta þér líða endalaust illa fyrir hans hönd. Boðskapur hans kemur vel til skila og Jesús virkar sem mun lagaskiptari persóna og þróast enn frekar í gegnum samskiptin við persónurnar í kringum sig.

Myndin heldur sig við efnið allan tímann og virkar svo sjálfsörugg, hlý (á rétta vegu) í boðskap sínum, frammfærslu og frásögn að ég get ekki annað en dáðst að henni. Það þurfti miklar hreðjar til að takast á við svona metnaðarfullt og umdeilt efni og þeir Scorsese og Paul Schrader, handritshöfundur myndarinnar, eiga mikið hrós skilið fyrir hversu virðingarmikil og vönduð útkoman er. Fullt hús!

(10/10)