Jæja, þá kom að því. Geimstrumpunum frá Pandóru var loks bolað úr
toppsætinu í bandarískum bíóhúsum, og hvað þurfti til? Jú, rómantíska
vasaklútadramað Dear John með dansaranum Channing Tatum og ABBA-dísinni Amöndu Seyfried í tárvotum aðalhlutverkunum. Er sú mynd byggð á þekktri skáldsögu
eftir Nicholas Sparks og segir frá ungum hermanni sem verður ástfanginn í
vorfríi einu en er meira og minna fjarverandi í hernum næstu sjö árin. Virðist
hún, þrátt fyrir misjafna dóma, ætla að fá svipaða aðsókn og The Notebook fékk
á sínum tíma, en hún rakaði inn 32 milljónum dollara á frumsýningarhelgi sinni.
Avatar féll því í annað sætið í fyrsta sinn, eftir sjö vikur á
toppnum. Aðsóknin var rúmar 23 milljónir dollara og er myndin komin í samanlagt
um 630 milljónir í Bandaríkjunum og hvorki meira né minna en 2.130 milljónir á
heimsvísu, og er engan veginn hætt, þó fyrsta sætið í Bandaríkjunum sé loks
runnið úr greipum blámáluðu geimindjánanna.
Ein önnur mynd var frumsýnd á landsvísu vestra, hasarmyndin From Paris with Love, en hún náði ekki að fylgja eftir vinsældum síðustu myndar
leikstjórans Pierre Morel, Taken, og fékk aðeins 8 millur í kassann, örlítið
meira en Edge of Darkness og grófmalaða röddin hans Mel Gibson. Crazy Heart
græddi á Óskarstilnefningunum sem voru tilkynntar fyrr í vikunni og stökk úr
14. sætinu upp í það áttunda í sinni áttundu sýningarviku.
Sherlock Holmes rauf 200 milljón dollara múrinn í Bandaríkjunum með
því að hanga inni á topp 10-listanum
sjöundu helgina í röð.
Það verður að teljast ólíklegt að Avatar nái toppsætinu á ný, þar sem
þrjár mögulega stórar myndir munu herja á kanann um næstu helgi, fjölskylduvæna
ævintýrið Percy Jackson & the Olympians: The Lightning Thief, gamanmyndin Valentine’s Day og spennumyndin The Wolfman. Hver haldið þið að verði efst?

