Chucky snýr aftur í endurgerð

En það er ekki allt og sumt.

Í gegnum 21. öldina hefur kvikmyndaiðnaðurinn verið duglegur við að endurgera flestar af stærstu og þekktustu hryllingsmyndum sögunnar; allar með svipuðum árangri. Einkennilegt þó er að endurgerð á myndinni Child's Play, sem hefur fest aðalkarakter sinn meðal þekktustu hryllingsmyndakaraktera okkar tíma, barst fyrst á góma árið 2008 en hefur síðan legið hljóð. Serían lifði til ársins 2004 með fimmtu myndinni Seed of Chucky og hefur skapari dúkkunnar, Don Mancini, sagt að það vilji enginn lengur sjá annað Chucky-framhald og að endurgerð sé eina leiðin. Sjálfur hefur hann verið að vinna að handriti endurgerðarinnar í vel yfir 5 ár núna og síðast þegar að hann talaði um hana, sem var árið 2008, sagði hann að myndin yrði mun dekkri og myndi minnka húmorinn heilmikið.
Fréttasíðan Moviehole náði tali af manninum sem hefur ljáð Chucky rödd sína í öllum myndunum, Brad Dourif, á meðan að Mad Monster Party ráðstefnan stóð yfir í vikunni. Þar hafði hann áhugaverðar uppfærslur á stöðu seríunnar og sagði að endurgerðin væri enn í vinnslu í höndum Mancini, en einnig að enn eitt framhaldið væri í bígerð.

Framhaldið mun bera titilinn Revenge of Chucky og mun halda söguþræði síðustu tveggja mynda um stækkandi fjölskyldu Chucky áfram. Dourif er fastur við bæði verkefnin, þó hann hefur ekki enn fengið handrit endurgerðarinnar í hendurnar, enda hefur Mancini áður sagt að „enginn gæti passað í hlutverkið eins og hann gerir“.

Þó að flestar hryllings-endurgerðir síðustu ára hafa sterkan óþef, þá gætu hlutirnir breyst með Child’s Play. Einfaldlega vegna þess að í þessu tilviki er upprunalega myndin hvorki heilagur safngripur né ósnertanleg klassík; hún er trúðaleg költ-mynd.
Kannski hef ég ekki fallið fyrir ostalegu sjörmum seríunnar eins og sumir, en hvernig hljómar endurlífgun Chucky fyrir lesendum?