Cape Fear leikkona látin

snippEmmy verðlaunahafinn og leikkonan Polly Bergen, sem lék í sjónvarpsþáttum eins og Desparate Housewives og í kvikmyndum eins og t.d. Cape Fear og Cry-Baby, er látin, 84 ára að aldri.

Upplýsingafulltrúi leikkonunnar sagði dagblaðinu The New York Times að Bergen hefði látist í gær, laugardag.  Orsök andlátsins er ekki kunn að svo stöddu.

Bergen lætur eftir sig tvær dætur, son og þrjú barnabörn, samkvæmt blaðinu.

Bergen, sem var einnig söngkona, hét upphaflega Neelie Paulina Burgin og fæddist í Knoxville í Tennessee árið 1930. Ferillinn hófst seint á fimmta áratug síðustu aldar og á sjötta áratugnum kom hún fram í þremur kvikmyndum með Dean Martin og Jerry Lewis; At War With the Army, That´s My Boy og The Stooge, auk þess sem hún lék aðalhlutverkið í eigin sjónvarpsseríu, The Polly Bergen Show.

Hún vann fyrstu og einu Emmy verðlaun sín árið 1957 fyrir hlutverk sitt sem Helen Morgan í þætti af sakamálaseríunni Playhouse 90. Hún var tilnefnd nokkrum sinum í viðbót til Emmy verðlauna, og síðast fyrir hlutverk sitt sem móðir persónu Felicity Huffman, Lynette, í sjónvarpsþáttunum vinsælu Desperate Housewives.

Bergen lék einnig hlutverk móður persónu Geena Davis, sem lék forseta Bandaríkjanna í þáttunum Commander in Chief. Bergen lék sjálf fyrsta bandaríska kvenforsetann í myndinni Kisses for My President árið 1964.

Tveimur árum þar á undan lék hún í spennutryllinum Cape Fear á móti Gregory Peck, Martin Balsam og Robert Mitchum, en hún lék eiginkonu lögfræðingsins sem fær á sig eltihrelli; fyrrum fanga sem sakar lögfræðinginn um að hafa komið sér í fangelsi.

Þá lék leikkonan með Johnny Depp og Ricki Lake í tónlistarmyndinni Cry-Baby frá 1990.

Síðast lék Bergen í bíómynd árið 2012, þegar hún lék ömmu persónu Glee stjörnunnar Chris Colfer í myndinni Struck by Lightning.

 

Stikk: