Bull áfram þrátt fyrir áreitni

Þrátt fyrir að aðalleikari sjónvarpsþáttanna Bull, Michael Weatherly, hafi verið sakaður um kynferðislega áreitni, hefur CBS sjónvarpsstöðin ákveðið að halda sínu striki og framleiða fjórðu seríu þáttanna. Þættirnir hafa notið vinsælda hér á landi í Sjónvarpi Símans.

Michael Weatherly sem Dr. Jason Bull

Yfirmenn hjá CBS hafa nú tjáð sig um þessa umdeildu ákvörðun, og lofa því að nýir starfshættir verði teknir upp sem „gangi lengra en áður hafi þekkst.“

Lögfræðiþættirnir verða áfram í framleiðslu eins og fyrr sagði, þrátt fyrir að ein af leikkonum í þáttunum, Eliza Dushku, hafi sakað Weatherley um kynferðislega áreitni, sem endaði með sáttagreiðslu upp á 9,5 milljónir bandaríkjadala.

Yfirmaður afþreyingarefnis hjá CBS, Kelly Kahl, sagði að eftir að leikarinn hafði beðist afsökunar þá hafi ákvörðunin um framhald verið tekin í gegnum „nýtt og ferskt sjónarhorn“.

Kahl viðurkennir að Weatherly hafi gert mistök en hann viðurkenni þau mistök sjálfur. „Hann hefur sagst tilbúinn í að fara í ráðgjöf og á námskeið til að vinna í sínum málum. Við litum til langs ferils hans hjá CBS stöðinni, eða 14 ára, og engar kvartanir hafa komið fram aðrar, hvorki fyrr né síðar. Hann tekur málið alvarlega og vill horfa fram á veginn. Hann vill bæta fyrir þetta,“ sagði Kahl í frétt Deadline af málinu.

Málið komst í hámæli í desember sl. þegar upplýst var að Dushku hefði náð samkomulagi við sjónvarpsstöðina um sáttagreiðsluna, vegna kynferðisáreitni Weatherly þegar hún var í leikhópi þáttanna.

Eitrað andrúmsloft

Dushku lýsti áreitninni í pistli í dagblaðinu Boston Globe, og sagði að andrúmsloftið við gerð þáttanna hafi verið baneitrað.

Weatherly neitaði að hafa átt þátt í því að Dushku var látin fara úr þáttunum, en viðurkenndi hegðun sem var „hvorki fyndin né við hæfi“ og sagðist sjá eftir öllu saman, og væri miður sín yfir þeim óþægindum sem hann hefði valdið Dushku.

Höfundar þáttanna eru Dr. Phil McGraw og Paul Attanasio. Þættirnir eru innblásnir af fyrstu árum sálfræðingsins Dr. Phil McGraw í starfi. Dr. Bull er heillandi og bráðsnjall, og nær að sameina sálfræði, mannskilning og hátækni, til að setja saman hárrétta kviðdóma.

Hér má lesa meira um málið.