Búið að ráða leikstjóra Jurassic Park 4

Colin Trevorrow hefur verið ráðinn leikstjóri Jurassic Park 4. Þetta kemur nokkuð á óvart því Trevorrow er óreyndur og hefur aðeins leikstýrt einni mynd, Safety Not Guaranteed sem kom út í fyrra.

Alveg síðan Steven Spielberg lét hafa eftir sér árið 2011 að hann og kvikmyndaverið Universal ætluðu að setja  Jurassic Park 4 af stað, hafa verið uppi vangaveltur um hver muni setjast í leikstjórastólinn.

Hingað til hafa aðeins Spielberg og Joe Johnston leikstýrt Jurassic Park-myndunum og verður forvitnilegt að sjá hvernig Trevorrow leysir þetta vandasama verkefni. Tökur eiga að hefjast í júní næstkomandi og myndin er væntanleg í bíó 2014.