Breytingar á Star Trek Beyond á síðustu stundu

Nú, þegar aðeins fjórir mánuðir eru þar til nýja Star Trek myndin, Star Trek Beyond, verður frumsýnd, hefur verið ákveðið að gera breytingar á myndinni.

startrek

Myndin, sem er eftir leikstjórann Justin Lin og verður frumsýnd 22. júlí, þarf að fara aftur í tökur ásamt nýjum leikara sem búið er að bæta í leikhópinn á síðustu stundu.

Deadline kvikmyndavefurinn segir að endurtökurnar muni hefjast í næstu viku, og segir að ástæðan sé líklega sú að prufusýningar á myndinni hafi gefið til kynna að eitthvað í klippingunni hafi ekki verið nógu vel heppnað.

Leikarinn sem bæst hefur við heitir Shohreh Aghdashloo, en hlutverkið sem hún leikur er yfirmaður hjá sambandsríkinu ( the Federation ).

Það sem ekki er vitað á þessari stundu er hvort að persónan er ný, eða hvort að persónan komi í stað annarrar persónu eða leikkonu í myndinni.

Aghdashloo, sem leikið hefur m..a í sjónvarpsþáttunum 24 og The Expanse,var fyrsta íranska leikkonan til að vinna til Emmy verðlauna, árið 2009. Leikkonan er kannski best þekkt fyrir hlutverk í X-Men: The Last Stand.