Blax á Blu

Á þessum tímum niðurhals (löglegs og ólöglegs) er aðdáunarvert hve mörg fyrirtæki hafa fyrir því að gefa myndir út í flottum viðhafnarútgáfum á Blu-ray; sér í lagi þegar kemur að „költ“ titlum. Nokkrir útgefendur skara fram úr hvað það varðar. Arrow films í Bretlandi hafa staðið sig framar vonum í að veita lítt þekktum og gleymdum myndum sérlega góða meðferð, bæði hvað varðar mynd- og hljóðgæði sem og hlaðinn pakka af aukaefni. Einnig má nefna Eureka, einnig í Bretlandi, en það fyrirtæki hefur gjarnan hlotið viðurnefnið „Criterion Bretanna“. Í Bandaríkjunum eru nokkrir útgefendur sem hlúa vel að gleymdum gersemum og má þar helst nefna Shout Factory, Synapse Films, Blue Underground og Kino Lorber.  Í júní 2013 reið Arrow Films á vaðið og gaf út „Blaxploitation“ („Blax“ verður notað sem stytting) klassíkina „Foxy Brown“ og nú eru nokkrir titlar ýmist nýútkomnir eða á leiðinni í þessari sérstöku tegund af kvikmyndum.

„Foxy Brown“, ásamt hálfgerðum forvera sínum „Coffy“, sem væntanleg er á Blu-ray frá Arrow í apríl, er ein af frægustu myndunum sem tengjast „Blax“ tegundinni. Óhóflega ofbeldisfull, hrá og móðgandi (þegar haft er í huga hugtak eins og pólitísk rétthugsun) en býr yfir svakalega miklu skemmtanagildi fyrir unnendur B-mynda.

„Blax“ gyðjan Pam Grier leikur aðalhlutverkið í báðum þessum myndum og varð hún hálfgerð staðalímynd sterku svörtu konunnar í karllægu umhverfi.  Báðar þessar myndir hljóta fyrsta flokks meðhöndlun hjá Arrow sem troðfylla pakkann af áhugaverðu aukadóti og búast má fastlega við því að „Coffy“ muni líta eins vel út og „Foxy Brown“ í háskerpu.

„Blax“ myndir  teygðu anga sína til allra tegunda af myndum og eftir að vinsældirnar létu ekki á sér standa kom svört útgáfa af Dracula; einfaldlega titluð „Blacula“.

Eureka gaf „Blacula“ út á Blu-ray í október 2014 (og framhald hennar „Scream, Blacula, Scream“) í flottum pakka sem skartar einnig DVD útgáfum af myndunum sem og viðtali við „költ“ alvitringinn og gagnrýnandann Kim Newman sem deilir miklum fróðleik um „Blax“ kvikmyndategundina. Þess má geta að báðar þessar myndir fá útgáfu á þessu ári í Bandaríkjunum frá Shout Factory.

Kino Lorber útgáfufyrirtækið er nýbúið að staðfesta að væntanleg frá þeim er „Sugar Hill“ á Blu-ray í júní. Þar gera uppvakningar allt vitlaust eftir að „voodoo“ galdur reisir þá upp í hefndarhug. Þessi hlýtur einfaldlega að vera spennandi!

„Blax“ myndir

Heitið samanstendur af samslætti orðanna „exploitation“ og „black“ og voru þessar myndir gerðar sérstaklega með svartan áhorfandahóp sem viðmið. Flestir leikaranna voru svartir og undantekningarlaust léku þeir hetjurnar og oftar en ekki voru hvítir menn í hlutverki ódæðismannanna. Megnið af myndunum fjölluðu um um fólk í hefndarhug (sbr. „Foxy Brown“ og „Coffy“) og sögusviðið var gjarnan fátækrahverfi í úthverfum Bandaríkjanna.

Líta má á þessar myndir sem hálfgerða útrás gagnvart valdbeitingunni sem svertingjar upplifðu frá yfirvaldinu og það er ekki að ástæðulausu þegar vampíran Blacula lumbrar á ótal lögreglumönnum í lokaatriðinu í myndinni. Allir lögregluþjónarnir eru líka hvítir.  Mikið af félagslegum vandamálum er tvinnað inn í þessar sögur. Fátækt og hungursneyð kemur mikið við sögu sem áhrifavaldur að framgangi mála sem og eiturlyfjaneysla sem ávallt er sýnd í neikvæðu ljósi.

Stórt sérkenni þessarra mynda er tónlistin. Mikið af fönki og „soul“ tónlist með miklum bassahljóm og nýstárlegum gítarhljómum. Oftar en ekki er gerð alger pása á atburðarás myndanna til að leyfa einu til tveimur tónlistaratriðum að njóta sín til fulls. Frekar spes!

„Blax“ myndirnar áttu frekar skamman líftíma en margir telja myndina „Cotton Comes to Harlem“ frá árinu 1971 marka ákveðinn uppgangspunkt.  „Shaft“ með Richard Roundtree er líkast til ábyrgust fyrir útbreiðslu myndanna til fleiri hópa en svartra og náðu margar þeirra að brúa bilið vel og skila inn miklum hagnaði. Pam Grier varð stórstjarna á þessum tíma og lék hún í ófáum „Blax“ myndum en bæði hún og Roundtree fundu fyrir því að frægðarsól þeirra féll eftir að þessu tímabili lauk. Margir þrýstihópar kunnu illa við hve mikið þessar myndir ýttu undir staðalímynd hvítra um háttarlag svartra og lögðu sig mikið fram um að leggja stein í götu þeirra. Áður en níundi áratugurinn gekk í garð var lítið um hreinræktaðar „Blax“ myndir og smám saman hurfu þær nær alveg. Í seinni tíð hafa margir kvikmyndagerðarmenn á borð við Quentin Tarantino, Spike Lee og John Singleton verið ófeimnir við að viðurkenna aðdáun sína á myndunum og halda minningum þeirra á lofti. Tarantino meira að segja fékk Pam Grier til liðs við sig í „Jackie Brown“ sem var hreinn virðingarvottur við „Blax“ myndirnar sálugu.

Það er því aðdáunarvert að sjá fyrsta flokks Blu-ray útgáfufyrirtæki taka þessar myndir upp á sína arma og titlum í háskerpu á vafalaust eftir að fjölga.

Stiklan úr Foxy Brown.