Avengers 2 heitir Age of Ultron

Marvel fyrirtækið tilkynnti á Comic-Con ráðstefnunni í San Diego í Bandaríkjunum í gær að nafn væri komið á næstu Avengers mynd. Nafn myndarinnar verður Avengers: Age of Ultron.  Joss Whedon leikstjóri myndarinnar sagði fréttirnar áður en sýnt var stutt kitla úr myndinnni. Myndin fylgir metsölumyndinni Avengers eftir, en hún var frumsýnd í fyrra og sló í gegn um allan heim.

avengers 2

Í kitlunni þá virðist fyrst sjást í Iron Man, og öðrum Avengers ofurhetjum sést síðan bregða fyrir. Yfir öllu hljómar texti úr fyrri myndinni: „Við erum ekki lið, við erum tímasprengja“ (“We’re not a team, we’re a time bomb).”

Í lok sýnishornsins sást svo loks í andlit vélmennis sem var ekki andlit Iron Man heldur andlit Ultron. Hann var með glóandi rauð augu sem skutu leisergeisla sem breyttust í nýja nafnið.

Ultron er skyni gætt vélmenni með ofurkrafta, sem hefur komið fram í Marvel teiknimyndasögum síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Oft þarf heilan her til að ráða niðurlögum hans, þannig að hann ætti að verða verðugur óvinur fyrir Avengers hópinn að kljást við.