Allt liðið er mætt í American Reunion

Universal hefur gefið út nýtt plakat fyrir myndina American Reunion, fjórðu „alvöru“ myndina í American Pie seríunni. Það er greinilegt hverju er verið að fiska eftir; nostalgíu. Eins og glöggir lesendur sjá er þetta nákvæm eftirlíking frægasta plakatsins fyrir fyrstu myndina – áratug seinna. Myndin mun gerast 10 árum á eftir fyrstu myndinni (en kemur út heilum 13 árum seinna!) og mun eins og nafnið gefur til kynna fjalla um endurfundi skólafélaganna. Nánast allir upprunalegu leikararnir snúa aftur fyrir myndina, og leikstjórar og handritshöfundar eru Jon Hurwitz og Hayden Schlossberg, guðfeður Harold & Kumar seríunnar.

Fyrsta sýnishorn myndarinnar var dottið á netið, og sýnir það eins og Tommi orðaði svo eftirminnilega að „Jim (Jason Biggs) virðist aldrei fá að geta notið ásta með sjálfum sér án þess að eitthvað slæmt komi upp á“. Kíkið þangað ef þið misstuð að henni. Er fólk spennt yfir enn einni American Pie myndinni? Sá aldrei allar þessar beint-á-dvd myndir, en hafði lúmskt gaman af hinum í gamla daga. Hér eru allavega plakötin til samanburðar: