Spennumyndafíkill frá unga aldri

Dev Patel aðalleikari, leikstjóri og einn handritshöfunda hasarmyndarinnar Monkey Man, sem kemur í bíó á morgun, föstudaginn 5. apríl, segist hafa verið spennumyndafíkill frá unga aldri. „Ég læddist niður og horfði á Bruce Lee í gegnum stigahandriðið í Enter the Dragon – það breytti lífi mínu,“ segir Patel í samtali við tímaritið Men´s Health.

Patel var síðar boðið að leika í svipuðum myndum og Enter the Dragon en þær voru aldrei alveg þær réttu – kannski útaf þeirri ímynd sem fólk hefur af hasarhetju á hvíta tjaldinu. „Ég las spennuhandrit sem bárust en mér var alltaf boðið að vera kumpáninn, hjálparhellan, eða tæknigaurinn, eða eitthvað annað,“ segir Patel. „Ég vissi að ég hefði miklu meira upp á að bjóða en það.“

Monkey Man (2024)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.8
Rotten tomatoes einkunn 89%

Nafnlaus ungur maður fer í hefndarför gegn spilltum glæpamönnum sem myrtu móður hans og víla ekki fyrir sér að níðast á fátæku og saklausu fólki....

Gat á markaðnum

Honum fannst líka vera ákveðið gat á markaðnum, jafnvel þó að John Wick myndir Keanu Reeves hafi slegið í gegn á síðasta áratug og komið hugmyndaríkum bönnuðum ofbeldismyndum aftur í tísku í Hollywood.

En í staðinn fyrir að bíða eftir að rétta hlutverkið ræki á fjörur sínar ákvað Patel að búa einfaldlega til hlutverk fyrir sig. Þar með varð Monkey Man leiðin fram á við. „Ég vissi að þessari tegund mynda vantaði alvöru lítilmagna. Ég vildi búa til hetju sem væri ekki endilega með alla hnyttnu frasana á hraðbergi og leit ekki út fyrir að vera helmassaður,“ útskýrir Patel. „Ekki einhver sem þú vissir að gæti lúbarið hundrað manns – ég vildi andstæðu slíkrar persónu.“

Patel kann sitthvað fyrir sér í bardagalistum. Þegar hann ólst upp í Bretlandi, áður en hann byrjaði að leika í vinsælu unglingaseríunni Skins, var hann óþekkur og fyrirgangssamur strákur sem þurfti útrás fyrir alla orkuna og stað þar sem hann myndi ekki lenda í veseni og slæmum félagsskap. Móðir hans brá þá á það ráð að láta hann æfa bardagalistina taekwondo. Þar blómstraði Patel. „Í taekwondo lærði ég í fyrsta skipti um aga og hvernig ég ætti að stilla orkuna af,“ segir hann. „Ég náði fljótt árangri og byrjaði að kenna yngri krökkunum.“

Vann brons í taekwondo

Patel keppti einnig á alþjóðavettvangi og vann bronsverðlaun á opnu heimsmeistarakeppninni í bardagalistum árið 2004. Svarta beltið í íþróttinni hlaut hann árið 2006.
Hann viðurkennir að hafa ekki verið nógu duglegur að halda sér í formi í gegnum árin þar sem leiklistin hafi verið í forgrunni, en hann vonaðist þó alltaf til að geta notað kunnáttuna fyrir framan tökuvélarnar. Og það tækifæri gafst loksins í Monkey Man sem hefur verið kölluð hin indverska John Wick.
Patel finnst samlíkingin góð enda átti að nota sömu áhættuleikara í báðum myndum, en Covid 19 faraldurinn kom í veg fyrir það á endanum. „Það þýddi að ég varð bæði að vera áhættuleikari og leikstjóri,“ segir Patel. „Ég vaknaði eldsnemma, hitaði upp og æfði með gaurunum.“

„Þetta er ein erfiðasta leikaravinna sem ég hef gengið í gegnum,“ viðurkennir Patel. „Ég er þessi klaufalegi, horaði gaur, en hugmyndin var að gera kvikmyndina eins grófa og frumstæða og hægt væri. Kid [persóna Patel í myndinni] er fastur í búri, hann er dýr sem búið er að króa af.“
En hvað borðaði Patel til að koma sér í form? „Ég borðaði lax, sætar kartöflur og salat þrisvar á dag, alla daga vikunnar, í níu mánuði,“ svarar Patel.

Innblástur frá Kóreu

Um myndir sem veittu honum innblástur nefnir leikarinn kóreskar kvikmyndir eins og Oldboy, I Saw the Devil, A Bittersweet Life og Man From Nowhere. Einnig nefnir hann Raid myndirnar frá Indónesíu ásamt myndum kung-fu hetjunnar Bruce Lee að sjálfsögðu.