Nýjasta mynd Wachowski systkinanna, tímaflakksmyndin Cloud Atlas, sem frumsýnd var í nóvember sl. hér á Íslandi, virðist falla vel í kramið í Kína, en myndin olli vonbrigðum aðsóknarlega séð í Bandaríkjunum og reyndar víðast hvar utan Bandaríkjanna einnig.
Engu skiptir þó að dreifingaraðilar í Kína hafi klippt heilar 40 mínútur af myndinni, sem var upphaflega 171 mínúta, til að hún hæfði sýningum í Kína – myndin hefur samt hlotið meiri aðsókn dag hvern í Kína undanfarið en nýjasta Bond myndin, Skyfall, að því er segir í The Hollywood Reporter.
Cloud Atlas var frumsýnd á fimmtudaginn síðasta í Kína og er strax við það að brjóta 100 milljón kínverskra yoan mörkin, en það samsvarar 16 milljónum Bandaríkjadala.
Samkvæmt kínverskri vefsíðu sem birtir gögn um aðsókn í bíó í Kína, þá var Cload Atlas búin að þéna 15,2 milljónir í gær, þriðjudag frá frumsýningu.
Miðað við það góða gengi, þá er búist við að myndin, sem meðal annars inniheldur kínversku leikkonuna Zhou Xun í aukahlutverki og var meðframleidd af framleiðslufyrirtækinu Dragon Pictures í Beijing í Kína, muni ná yfir 100 milljón yoan markið í dag, miðvikudag.
Cloud Atlas hefur gengið betur en Skyfall á hverjum degi þessa daga sem báðar myndir hafa verið í sýningum. James Bond myndin, sem var frumsýnd þann 21. janúar sl., er þegar búin að þéna 53,7 milljónir dala ( 335 milljónir yoan ) í landinu, en undanfarið hefur aðsóknin verið að minnka.
Í gær, þriðjudag, þénaði Skyfall 8 milljónir yoan en Cloud Atlas þénaði 13 milljónir yoan.
Léttir fyrir leikstjórana
Það má leiða að því líkum að leikstjórunum, þeim Andy og Lana Wachowski og Tom Tykwer, sé létt við þennan góða árangur í Kína, enda hefur myndin valdið vonbrigðum víðast hvar annars staðar eins og fyrr sagði, og eru tekjur einungis orðnar samanlagt um 85,2 milljónir dala á heimsvísu, fyrir utan tekjurnar í Kína.
Myndin er því um það bil að ná upp í framleiðslukostnað þegar allt er talið saman, en myndin kostaði 102 milljónir dala.
Svo virðist sem stytting myndarinnar um 40 mínútur hafi ekki dregið úr áhuga bíógesta í Kína, en meðal annars voru klipptar út nektarsenur, sem og stutt sena með þjónustustúlku á kaffihúsi á 22. öldinni í Kóreu, að stunda kynlíf með umsjónarmanni sínum.