Kína bannar Ghostbusters

Kína, fjölmennasta land í heimi og annar stærsti bíómarkaður heims,  hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að banna sýningar á kvikmyndum í landinu þar sem draugar koma við sögu, vegna loðinna ritskoðunarreglna. Samkvæmt heimildum vefsíðunnar The Hollywood Reporter er nýja Ghostbusters myndin eftir Paul Feig, nýjasta fórnarlamb þessara reglna.

melissa mccarthy

Myndin verður frumsýnd 20. júlí hér á Íslandi, og í Bandaríkjunum í þessari viku.

Opinberar ritskoðunarreglur í Kína banna allar kvikmyndir sem „kynna trúarhópa eða hjátrú“ – en þetta er arfleifð frá veraldlegri hugmyndafræði Kommúnistaflokksins – og hafa embættismenn verið þekktir fyrir að nota þessa klásúlu sem rök fyrir því að banna myndir þar sem draugar eða yfirnáttúrulegar verur, sem eru samt hálf-raunverulegar, koma við sögu .  (Pirates of the Caribbean: Dead Man’s Chest var bönnuð með þessum rökum árið 2006).

Í Hollywood hafa menn haft áhyggjur af þessu allar götur frá því tökur Ghostbusters hófust, og nú virðist stóri dómur vera fallinn.

Sögusagnir um ritskoðunina hafa verið á kreiki um nokkra hríð, eða allt síðan kínverski bókstafurinn fyrir „draug“ var fjarlægður úr kínverskum titli myndarinnar, þó svo að hann fái að vera í nöfnum upprunalegu myndanna.

Upprunalega myndin frá árinu 1984, sem aldrei var sýnd í bíó í Kína, var þýdd  “捉鬼敢死队,” en þetta eru fimm kínverskir stafir sem þýða bókstaflega „Draugur Fangari Áskorun Deyja Lið“ eða á ensku: “Ghost Catcher Dare Die Team.”

Sama sagan var með framhaldsmyndirnar. Í nýju myndinni, sem er endurræsing á myndaröðinni, er titillinn orðinn draugalaus:  “超能敢死队,” sem þýðir „Ofur Kraftur Áskorun Deyja Lið“ eða á ensku:  “Super Power Dare Die Team.”

Margir gátu sér þess til að Sony hafi gert þessa aðlögun í von um að þar með slyppi myndin við ritskoðunina, enda er um verulega mikinn fjárhagslegan ávinnig að ræða, að komast inn á kínverska markaðinn.

En heimildir sem þekkja til hjá China Film. Co., opinberri kvikmyndastofnun landsins sem fer með málefni erlendra mynda, segja The Hollywood Reporter, að búið sé að ákveða að ritskoða myndina, og banna sýningar á henni.

Enginn áhugi hjá áhorfendum

„Það hefur verið staðfest að Ghostbusters muni ekki koma til Kína af því að þeir telja að kínverskir áhorfendur hafi ekki áhuga á henni,“ sagði einn kínverskur ráðamaður. „Flestir kínverskir áhorfendur sáu ekki gömlu myndirnar, þannig að menn telja ekki markað fyrir þá nýju,“ bætti hann við.

Sony hefur ekki tjáð sig um málið, en heimildir úr þeirra herbúðum herma að ekki sé búið að sækja opinberlega um leyfi til sýninga í Kína.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Melissa McCarthy, Kristen Wiig, Kate McKinnon og Leslie Jones, en þær leika draugarannsakendur áþekka þeim sem þeir Bill Murray, Dan Aykroyd, Ernie Hudson og Harold Ramis léku í upprunalegu myndunum.

Kínverski markaðurinn verður sífellt mikilvægari fyrir Hollywood kvikmyndaverin. Aðsóknarmestu Hollywood myndirnar í Kína það sem af er ári eru Zootopia, með 235,5 milljónir Bandaríkjadala í tekjur, Warcraft með 221 milljón dala í tekjur og Captain America: Civil War, með 190,4 milljónir dala í tekjur.

Kostnaður við gerð nýju Ghostbusters er 144 milljónir dala, en henni er spáð 38 – 50 milljónum dala í tekjur í Bandaríkjunum, þegar hún verður frumsýnd nú um næstu helgi.